135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:04]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta hér nokkuð sem kom fram í magnaðri ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Nú skilst mér að búið sé að breyta lögum um eftirlaunaþega í þá veru sem — eða ekki í þá veru sem hv. þingmaður lýsti. Ég vil einnig minna á að samkvæmt 17. gr. varðandi söluhagnað af íbúðarhúsnæði eru í lögunum þar gefin tækifæri til skattfrestunar eða skattniðurfellingar og það má auðvitað finna víða svona atriði eins og hér hefur verið farið yfir.

Það sem skiptir verulegu máli í þessu er að hér er ekki verið að strika út með einu pennastriki eins og var látið að liggja tekjur sem eru hér áætlaðar í ríkissjóð á þessu ári eða næsta. Ég sagði í ræðu minni að ég teldi að umrædd löggjöf væri að vissu leyti barn síns tíma eins og hún var sett upp fyrir tíu árum síðan og þar af leiðandi er það ákveðið framfaraskref að hafa tekið löggjöfina upp og unnið með hana og komið með hana inn á þingið og fengið umrædda aðila til að fara yfir. Þar af leiðandi vil ég enn og aftur vísa einfaldlega til bæði ræðu minnar og andsvars fyrr í þessari umræðu gagnvart þeim fyrirvara sem ég er með við þetta frumvarp.

Ég fagna því hins vegar hvað hv. þm. Jón Bjarnason er búinn að kynna sér vel jafnaðarmennskuna og stefnu Samfylkingarinnar og jafnaðarmanna almennt og á svo sem von á því að bráðlega fari Vinstri grænir þá að fjalla um Evrópumál af meiri krafti en hefur verið á umliðnum mánuðum og árum.