135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra ef það er einhver liður í inngöngu í Evrópusambandið að fella niður þessa uppsöfnuðu skatta. (Gripið fram í.) Það er nýtt fyrir mér. En svona geta þræðirnir legið og það var athyglisvert að heyra það hjá hv. þingmanni að svo geti verið.

Það sem ég aftur á móti hegg eftir er að boðað er að það eigi að endurskoða skattalögin, tekjuskattslögin í heild sinni og boðað að það eigi helst að gerast sem fyrst. Þá eru menn væntanlega að horfa til haustsins eða næsta vetrar. Þá spyr maður sig hvers vegna sé þá verið að keyra þetta í gegn þegar fullyrt er að það að fella þetta niður með þessum hætti hafi engin áhrif á tekjur ríkissjóðs því að þetta komi hvort eð er ekkert inn. Það ætti þá enn þá frekar að árétta að það bráðliggur ekki svona á þessu þannig að þetta gæti orðið hluti af heildartekjuskattsendurskoðun. Ég spyr af hverju hv. þm. Gunnar Svavarsson stendur þá ekki með okkur um að þetta bara fari í það heildarpúkk.

Ég sakna þess líka hér í umfjölluninni og í umsögn fjármálaráðuneytisins að það sé gefið tölulega upp um hversu mikið fjármagn hér sé að ræða sem gæti verið að tapast eða gæti verið að koma inn. Það eru bara látin standa gildishlaðin orð um að nokkur hluti eða einhver hluti geti verið tapaður eða einhver hluti geti innheimst. Ég spyr hv. þingmann og formann fjárlaganefndar: (Forseti hringir.) Er slíkt orðalag og meðferð á fjármunum ríkisins ásættanlegt?