135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mjög athyglisvert að heyra orð hv. þingmanns og talsmanns Samfylkingarinnar hér á þingi í ríkisfjármálum, Gunnars Svavarssonar, og líka þá forgangsröðun sem sá flokkur, Samfylkingin, virðist hafa hér hvað varðar skattamál eða aflausn skatta því að þetta er ekkert annað en að hér er verið að fella út annars vegar uppsafnaðan skatt og hins vegar er verið að fella út í rauninni skattstofn. Hv. þingmaður getur komið að því í seinni ræðu sinni.

Er þetta forgangsröðun Samfylkingarinnar í skattamálum, að fella burt skatt af arði af sölu hlutabréfa fyrirtækja? Ég vil ítrekað benda á hvað Alþýðusamband Íslands segir. Lokaorð umsagnar þeirra eru, með leyfi forseta:

„ASÍ leggst því eindregið gegn þeirri breytingu að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum [og afleiðum] verði undanþeginn skattskyldu.“

Þetta eru ein stærstu launþegasamtökin með einmitt hina almennu launþega sem sína félagsmenn.

Ríkisskattstjóri segir nákvæmlega það sama. Er ekkert mark takandi á þessum aðilum? Það er verið að tala um að þetta breyti engu. Hvers vegna er þá ekki í lagi að fresta málinu þegar koma svo alvarlegar og ákveðnar athugasemdir og áskorun um að (Forseti hringir.) málið gangi ekki fram?

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmaður komi hér og geri þá grein fyrir forgangsröðun Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) ef þetta skal vera forgangsröðun og forgangsmál hennar fyrir launþega í landinu.