135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög sjaldgæft að menn hafi tapað á íbúðarhúsnæði undanfarið, a.m.k. ekki á Reykjavíkursvæðinu, fullyrðing mín stendur því eftir sem áður og við erum að tala um mjög stórt húsnæði sem menn mega eiga, það eru u.þ.b. 200–300 fermetrar.

Varðandi þessa 60 milljarða sem hv. þingmaður þykist hafa í hendi, fyrirtækin þurfa bara að endurfjárfesta og nóg er af hlutabréfum til kaups á markaði, þannig að þau sem sýndu þennan hagnað eiga auðvelt með að kaupa hlutabréf og hafa þegar gert það. Þennan hagnað sér hv. þingmaður aldrei í hirslum ríkissjóðs nema forstjóri fyrirtækisins sé sofandi fyrir því að fjárfesta. Það er mjög auðvelt að fjárfesta þetta og í dag eru sérstaklega góð tækifæri til þess — fyrir utan það að nú hefur þessi tala sennilega lækkað umtalsvert vegna verðlækkunar á hlutabréfum. Núna sýna menn tap sem þeir færa á móti.

Þessi tala var, þessir 330 milljarðar, hún var. Ég vona að hún verði ekki mjög lengi í huga hv. þingmanns því að síðustu sex mánuðina hefur hagnaður síðustu tveggja ára í íslensku atvinnulífi almennt séð horfið. Við heyrðum af því fréttir í dag að eitt fyrirtæki hefði tapað 70 milljörðum frá áramótum þannig að ég er hræddur um að þessi feiknalegi fugl sem hv. þingmaður taldi sig hafa í hendi sé enn flögrandi í skóginum.