135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að framtalinn söluhagnaður sé eins og fugl í skógi. Hann er framtalinn, hann er bókfærður og skuldbindingin er útreiknuð og skráð í bækur fyrirtækjanna. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur m.a. fram að ýmis fjármálafyrirtæki muni hagnast verulega á samþykkt frumvarpsins á þann veg að þessi skattskuldbinding hverfur og verður að eigin fé og eigið fé þeirra muni jafnvel hækka um milljarða króna. Það er því ekki fugl í skógi þegar eigið fé fyrirtækis hækkar um milljarða króna með samþykkt eins frumvarps, það er verið að láta af hendi raunveruleg verðmæti, virðulegi forseti.

Það stendur upp á hv. þingmann, formann efnahags- og skattanefndar, ásamt stjórnarliðinu, að sjá til þess að íslenskir eigendur hlutabréfa, sérstaklega í fjármálafyrirtækjum, borgi þá skatta sem þeim ber. Skattalögin gera ráð fyrir því að söluhagnaði megi ekki fresta í þessum fyrirtækjum þar sem aðalstarfsemin er kaup og sala verðbréfa. Þau hafa komist upp með það og ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna gerir hann ekki gangskör að því að stöðva þá framkvæmd og tryggja að lögin séu virt í stað þess að leggja til frumvarp sem fellir þetta niður, skattinn sem átti alltaf að borga?

Það stendur líka upp á hv. þingmann að beita sér fyrir löggjöf — og ábendingar hafa komið fram um það frá skattkerfinu að setja slík lög — sem skyldar íslenska aðila sem eiga fyrirtæki erlendis til að veita upplýsingar um þau, eignir og afkomu, þannig að íslenska ríkið geti skattlagt (Forseti hringir.) tekjur þeirra og hagnað eins og rétt er í stað þess að þau geti komið sér undan því að borga skatta eins og við þekkjum.