135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

umræða um Evrópumál.

[10:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er nú aldeilis ekki að umræðan sé ótímabær, varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt það hér að umræðan sé tímabær og að þjóðin fái að kjósa um það á næsta kjörtímabili hvort við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Fyrsta spurningin getur þá verið: Er hæstv. fjármálaráðherra ósammála hæstv. menntamálaráðherra um að það eigi að kjósa um það á næsta kjörtímabili hvort við gerumst aðilar að Evrópusambandinu? [Hlátrasköll í þingsal.]

Svo er það annað: Er hæstv. fjármálaráðherra sammála hæstv. utanríkisráðherra um að Evrópunefndin hafi mikið svigrúm, að henni sé í sjálfsvald sett hvernig hún starfar og að hún geti komið fram með tillögur og að hún hafi frjálsar hendur og hafi ekki fengið stífa forskrift? Þessu vil ég fá svar við, mjög skýrt svar, hvort hæstv. fjármálaráðherra er sammála um þetta mikla svigrúm sem hæstv. utanríkisráðherra segir að Evrópunefndin hafi, því að það skiptir mjög miklu máli.