135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

reglugerð um gjafsókn.

[10:53]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ítreka að það sér hver maður í hendi sér að einstaklingur með 133 þús. kr. á mánuði getur hvorki sótt né varið dómsmál. Hér er verið að skerða einstaklingsfrelsi af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra, það er ekkert öðruvísi. Hér er verið að skerða grundvallarréttindi um aðgengi að dómstólum, það er bara þannig.

Hver eru rökin fyrir því að það fari of mikið fé í þetta? Á maður að spara á mannréttindum, eru það rökin, að það fari of mikið fé í að tryggja mannréttindi einstaklinganna, einstaklingsfrelsið, að það réttlæti að skerða mannréttindi með þessum hætti? Það er aldeilis fráleitt að mínu mati.

Við erum bundin mannréttindasáttmálum sem segja okkur að tryggja aðgengi einstaklinga að dómstólum og það kemur mér mjög á óvart að einstaklingshyggjuflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, skuli setja þessa steina á brautir mannréttinda og brautir einstaklinga.