135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

rústabjörgunarsveit til Kína.

[11:01]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við heyrum í fréttum af miklum hörmungum sem hrella vini okkar í Kína. Um er að ræða miklar náttúruhamfarir með skelfilegum afleiðingum, miklu manntjóni og miklu eignatjóni. Íslendingar eiga alþjóðabjörgunarsveit, rústabjörgunarsveit, sem er viðurkennd af alþjóðasamfélaginu og er byggð upp samkvæmt stöðlum Sameinuðu þjóðanna um meðalþunga sveit. Meðlimir hennar hafa lagt á sig mikla og skipulagða þjálfun á undanförnum árum og þeir hafa sérstakar þjálfunarbúðir á Gufuskálum sem þykja með þeim bestu sem völ er á til að þjálfa sveitir til að takast á við þessi verkefni. Búnaður sveitarinnar hefur verið byggður upp á undanförnum nokkrum árum með það að markmiði að sveitin geti tekið þátt í verkefnum á alþjóðavettvangi þar sem um er að ræða fyrst og fremst fallnar byggingar eða jarðskjálftasvæði. Sveitin hefur samning við utanríkisráðuneytið og svona sveitir hafa skipt sköpum í björgun mannslífa þegar vá sem þessa ber að höndum.

Mörgum finnst kannski að fjarlægðin til Kína sé mikil og að ekki sé raunhæft að tala um að íslensk alþjóðabjörgunarsveit eigi erindi þangað. Í Pakistan, í þeim miklu náttúruhamförum sem þar voru fyrir þremur árum, voru það sveitir frá Bretlandi sem fyrstar komu á vettvang og björguðu tugum mannslífa, sveitir svipaðar og okkar sveit. Þessi sveit hefur farið til Alsírs, Marokkós og víðar. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum æfingum og staðið sig með sóma.

Spurning mín til utanríkisráðherra er: Var vinaþjóð okkar Kínverjum boðin aðstoð þessarar sveitar og var það skoðað í fullri alvöru að senda hana á vettvang (Forseti hringir.) við þessar náttúruhamfarir?