135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

rústabjörgunarsveit til Kína.

[11:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér kemur fram hjá þingmanninum að jarðskjálftinn í Kína er auðvitað mjög alvarlegt mál. Hann hefur alvarlegar afleiðingar fyrir tugþúsundir Kínverja og leiðir miklar hörmungar yfir það svæði sem verst verður úti vegna jarðskjálftanna. Það er líka rétt sem þingmaðurinn sagði að við eigum ágæta rústabjörgunarsveit sem gæti nýst vel við slíkar aðstæður. Auðvitað stendur slík sveit til boða þar sem hörmungar vegna jarðskjálfta leiða til mikils hruns mannvirkja og er sjálfsagt að leggja hana af mörkum ef eftir því er óskað. Kínverjar hafa enn ekki óskað eftir atbeina erlendra liðsveita til að takast á við þetta mál. Þeir telja sig væntanlega vera ágætlega sjálfir í stakk búna til þess. En ef Kínverjar óska eftir einhverju slíku liðsinni þá er meira en sjálfsagt að við skoðum það með hvaða hætti við getum lagt okkar af mörkum, m.a. með þessari rústabjörgunarsveit.

Eins og ég sagði, getur það líka verið viðkvæmt hjá ríkjum hvort leita eigi til erlendra aðila til aðstoðar og Kínverjar hafa enn ekki gert það en geri þeir það munum við að sjálfsögðu bregðast vel við þeirri beiðni. [Háreysti og lófatak á þingpöllum.]