135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:29]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Til viðbótar þeim einstaka rausnarskap sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ætlar með þessu máli að sýna gróðafyrirtækjum, að klæðskerasauma sérstök skattafríðindi fyrir þá sem hafa hagnað af sölu hlutabréfa, er í frumvarpinu ákvæði sem ég get með engu móti sætt mig við.

Í frumvarpinu á með lögum að færa störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Færa á með lögum störf úr skattumdæmum landsbyggðarinnar til Reykjavíkur. Það er til mikillar skammar fyrir þá hv. þingmenn — sem héðan úr þessum ræðustól og örugglega á fundum, ekki síst þegar þeir eru komnir út í kjördæmi sín, fara mikinn í því að þeir vilji efla landsbyggðina og færa þangað störf og umsvif — að standa að máli af þessu tagi þó að það vegi ekki mjög þungt. En prinsippið sem með þessu er ákveðið hér og afgreitt, að flytja með lögum störf í þessa átt, það er með miklum endemum í ljósi (Forseti hringir.) allrar umræðunnar um að menn vilji færa störf í gagnstæða átt. Ég greiði atkvæði gegn frumvarpinu, herra forseti, og tel það reyndar alveg með endemum að þetta skuli eiga að (Forseti hringir.) afgreiðast svona.