135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Þuríði Backman að þingmenn Vinstri grænna studdu frumvarp um heilbrigðislögin og sömuleiðis var fulltrúi þeirra í nefndinni sem samdi og kom með tillögu um lögin á sínum tíma.

Það er mikilvægt að ljóst sé að hér er fyrst og fremst um praktíska útfærslu að ræða þegar kemur að kaupum á heilbrigðisþjónustu á því sem samþykkt var í þeim lögum. Þetta er fyrst og fremst praktísk útfærsla. Eins og þingmenn vita var það samþykkt að ráðherra hefði vald til þess að kaupa þjónustu eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum. Honum var veitt heimild til þess að láta nefnd fjalla um það og koma því í framkvæmd sem hefur verið gert og samninganefnd heilbrigðisráðherra hefur gert það fram til þessa.

Það sem hér er hins vegar um að ræða er að menn eru að reyna að þétta það þannig að þeir sem sinna þessu hafi eins mikla og góða faglega þekkingu og mögulegt er. Þá tökum við undir þau fjölmörgu sjónarmið sem hafa komið fram, bæði þeirra sem fjalla um þetta innan lands og sömuleiðis þeirra erlendu aðila sem skoða þetta. Verið er að að styrkja hið svonefnda kaupendahlutverk þjónustunnar, þ.e. að sá sem kaupir þjónustuna sé styrktur faglega til þess að takast á við það verkefni. Það er eitthvað sem ég held að mjög erfitt sé að vera á móti.

Þetta er í rauninni það sem við erum að fjalla um hér og er ekki um meiri efnislegar breytingar að ræða. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að þessi öflugu þingmenn sem hér eru afgreiði þetta mál. Ég veit að þeir gera það ef þeir leggja sig fram við það og þeir hafa nú afgreitt miklu stærri mál á skemmri tíma en þetta.