135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður náttúrlega að fara rétt með það sem er í þessu frumvarpi. Hér er ekkert verið að tala um breytt hlutverk Landspítalans. Ég hvet menn til þess að skoða lögin sem þeir hafa sjálfir samþykkt. (Gripið fram í: Ég nefndi það …)

Virðulegi forseti. Það er lykilatriði að menn geri það því að hér samþykktu menn lög, allir úr öllum flokkum, um heilbrigðisþjónustu fyrir rétt um ári síðan. Þar hljóta menn að skoða VII. kafla þeirra laga og fara yfir hvað þeir samþykktu þá. Og ef það er svo að menn eru ósáttir við þann kafla laganna þá hefðu þeir átt að nota tækifærið til þess að greiða þá ekki atkvæði með þeim. Það er það sem var gert og var algjör samstaða um það á þingi og var ástæða til. Þetta sem hér er verið að ræða (Gripið fram í.) er eitthvað sem allir þingmenn samþykktu fyrir ári síðan.

Ég ætla mönnum ekki annað, virðulegi forseti, en að þeir hafi vitað hvað þeir voru gera því að það er mjög alvarlegt ef þeir gerðu það ekki. Það er nú ekki eins og þetta sé flókið. Það getur hver leikmaður sem les þennan kafla séð hvað þarna er á ferðinni og er alveg ljóst að menn vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir sömdu þessi lög og samþykktu þau, sem fulltrúi vinstri grænna kom að, virðulegi forseti.