135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:05]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja við hæstv. ráðherra að það er algerlega óþarft að tala niður til þingmanna með þeim hætti sem hæstv. ráðherra leyfði sér að gera ítrekað, bæði í fyrstu ræðu sinni og í andsvörum. Það er alger óþarfi, hæstv. ráðherra, ekki síst þegar litið er til þess að hæstv. ráðherra gerir ekki minnstu tilraun til að svara þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Þær voru mjög skýrar. Ég spurði: Hvað er það í þessu frumvarpi sem gæti breytt meðferð þess ágreinings sem uppi er varðandi Sóltúnsmálið núna, þetta flaggskip einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu, sem er strand og er greinilega búið að vera strand með fullri vitneskju ráðuneytisins frá því 2003? Ég tel mjög brýnt áður en lengra er gengið á einkavæðingarbrautinni í heilbrigðisþjónustunni að beðið verði eftir því hverjar lyktir þess máls verða. Ég spurði sérstaklega að því, af því að vísað er svona sterkt bæði til Svíþjóðar og Bretlands þar sem eftirlitskerfið með sölusamningum sem þessum er óháð þeim sem kaupir þjónustuna, af hverju svo væri þá ekki í þessu frumvarpi. Við þessu fékk ég engin svör, herra forseti.

Ég vil vekja athygli á því að að mínu viti er ekkert í þessu frumvarpi sem hefði breytt þeirri asnalegu og erfiðu stöðu sem ríkið er í gagnvart Sóltúni komi slíkur ágreiningur upp. Ég er ekki að dæma þjónustu þeirrar stofnunar en ég hefði viljað sjá þegar farið er í mál af þessu tagi að það yrðu skýr ákvæði til að mynda um tímalengd samninga. Um það m.a. þarf að taka sérstaka ákvörðun hér,(Forseti hringir.) og eins hvernig brot og bætur reiknast. Það veldur mér vonbrigðum, herra forseti, að ráðherrann skuli nýta andsvaratíma sinn til að tala niður til fólks en ekki til að svara spurningum.