135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú þekki ég ekki þau fordæmi sem hv. þingmaður vísar hér til og þá hvort þar hafi verið byggt á samkomulagi undir einhverjum alveg sérstökum kringumstæðum. Ég þekki það ekki. En ég veit hitt, að jafnan þegar reynt hefur verið að hafa þennan hátt á þá hefur því verið andmælt. Ég veit ekki til þess að nokkurt fordæmi sé fyrir því að formaður í nefnd þingsins skuli án þess að gera minnstu tilraun til samráðs við aðra nefndarmenn upp á sitt eigið fordæmi skjóta máli út til umsagnar — og eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á — áður en málið er komið á dagskrá. Það var tekið hér á dagskrá með afbrigðum í upphafi þessa þingfundar. En hv. formaður heilbrigðisnefndar upplýsir okkur nú um að þegar fyrir hvítasunnu (Forseti hringir.) hafi hún sent málið út til umsagnaraðila. En hún ætlar af góðmennsku sinni að leyfa (Forseti hringir.) samnefndarmönnum sínum að koma með einhverjar tillögur um viðbótaraðila til að veita umsögn um málið. Þetta eru vinnubrögð sem ganga ekki og ég held að við verðum (Forseti hringir.) að gera hlé á fundinum og koma saman, formenn þingflokka, til þess að ræða þetta mál.