135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:39]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú ofbjóða mér algjörlega vinnubrögðin. Þetta er kornið sem fyllir mælinn eftir að búið er að koma þannig fram við þingið að frumvarpið kemur inn þegar örfáir dagar eru eftir, þetta stóra mál upp á tugi greina, tekið hér inn með afbrigðum á þessum fundi til umræðu enda hafa stjórnarflokkarnir það ríflegan meiri hluta að þeir geta tekið mál hér á dagskrá í raun þegar þeim sýnist. Og þetta gerist þrátt fyrir það að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segi að það eigi að standa vörð um sjálfstæði Alþingis.

Hæstv. forseti. Þetta eru þannig vinnubrögð að ekki er hægt að sætta sig við þau. Til viðbótar þessu sagði hæstv. heilbrigðisráðherra í tengslum við stefnuræðu forsætisráðherra að hann vildi ná sem víðtækastri sátt um þann mikilvæga málaflokk sem heilbrigðismálin eru. Þetta eru sáttatillögur stjórnarflokkanna og þetta er heilbrigðisráðherrann (Forseti hringir.) og Sjálfstæðisflokkurinn í hnotskurn.