135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:46]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel ekki rétt og nóg af hv. formanni heilbrigðisnefndar að vísa til ráðgjafar frá nefndasviði. Ég óska eftir því að formenn þingflokka fari nákvæmlega ofan í það hvaða sérfræðingar nefndasviðs það voru sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan eða nefndasvið almennt, hverjir ráðlögðu hv. þm. Ástu Möller þetta, hvaða fordæmi voru nákvæmlega, síðan hvenær eru þau og af hvaða tilefni þetta var gert.

Herra forseti. Auk þess að fara nákvæmlega ofan í þetta mál og vinnubrögðin sem eru ekki boðleg, en eins og ég segi þá er mér sem nefndarmanni í heilbrigðisnefnd mjög misboðið með vinnubrögðum sem þessum, þá þarf líka að gæta þess að þetta (Forseti hringir.) verði ekki fordæmi sem síðar verður vísað til og það er þess vegna, herra forseti, sem það er nauðsynlegt að rannsaka (Forseti hringir.) þetta mál nú þegar og það mjög ítarlega.