135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:31]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrir stuttu síðan voru gerðar breytingar á stjórnsýslu toll- og lögreglumála í landinu, bæði tollaumdæmum og lögregluumdæmum var fækkað. Við það tækifæri skilst mér að hæstv. dómsmálaráðherra hafi fagnað breytingunum og samrekstri löggæslu og tolls á Suðurnesjum. Nú hafa hins vegar hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin boðað að gera eigi breytingar á einu þessara umdæma, þ.e. að kljúfa upp toll-, lögreglu- og öryggisdeild á Suðurnesjum. Það á að færa tollstjórn frá Suðurnesjum til Reykjavíkur og maður spyr af hverju. Á Íslandi eru átta tollstjórar og sjö þessara embætta eru samrekin með lögreglunni þannig að það eru sjö toll- og lögreglustjóraembætti. Það er eitt embætti sem ekki er þannig og það er í Reykjavík, þar er sér tollstjóraembætti.

Hér er því ekki verið að boða að skipta stjórnsýslunni almennt upp eftir málaflokkum ráðuneyta eins og sumir stjórnarsinnar hafa verið að segja af því að þá hefði væntanlega öll tollstjórn verið færð af landsbyggðinni í miðlægt embætti, þá líklega hér í Reykjavík. Hér er verið að fara alveg sértækt inn í einungis eitt embætti. Að mínu mati, og reyndar einnig starfsmanna embættisins, er fjárhagslegt og stjórnunarlegt óhagræði að breytingunni sem ríkisstjórnin hefur boðað. Starfsmenn embættisins hafa sagt það opinberlega að þeir telji að boðaðar breytingar veiki varnir á Keflavíkurflugvelli og skaði þannig landsmenn alla.

Tollverðir á Suðurnesjum eru einhuga í afstöðu sinni til þessa máls og ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa upp úr ályktun þeirra:

„Tollverðir mótmæla einhliða ákvörðun dómsmálaráðuneytisins er varðar upplausn sameinaðs löggæsluembættis Suðurnesja. ... tollverðir sjá engar efnislegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir þessari ákvörðun og óska eindregið eftir að hún verði tekin til endurskoðunar. Tollverðir óttast þau áhrif sem ákvörðunin getur haft á hinn góða starfsanda og frábæra árangur, sem undanfarin ár hefur einkennt embætti Jóhanns R. Benediktssonar lögreglu- og tollstjóra. Tollverðir óttast einnig að hin áratuga langa og góða samvinna löggæsluaðila á Suðurnesjum muni minnka. Þá óttast tollverðir að fíkniefnaeftirlit, tolleftirlit, eftirlit með innflutningi á vopnum og öðrum ólöglegum varningi og innheimta aðflutningsgjalda verði óskilvirkari og versni í kjölfar þessara breytinga.“

Það eru öll greidd atkvæði á félagsfundi tollvarða sem samþykkja þetta. Ég kaus að lesa þetta upp af því að þetta lýsir svolítið vel innihaldi þessa máls.

Ég vil líka vekja athygli á því að Landssamband lögreglumanna ályktaði á landsþingi sínu í Munaðarnesi um síðustu mánaðamót að lögreglumenn séu sammála um að fjárveitingar sem ætlaðar eru til lögregluembætta séu í engu samræmi við þær skyldur sem á þau eru lagðar. Þeir álykta líka um að styðja baráttu lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir leiðréttingu á fjárveitingum til þessa annars stærsta lögregluembættis landsins. Það er því alveg ljóst að þeir starfsmenn sem þarna eiga hlut að máli eru afar andsnúnir því að skipta þessu embætti upp.

Ég finn að stjórnarsinnar eru ósammála í málinu, mér hefur alla vega skilist á mönnum í þingflokki Samfylkingarinnar að þeir muni ekki ljá máls á því að þetta mál fái framgang. Þeir muni þá stoppa hæstv. dómsmálaráðherra af þrátt fyrir að Samfylkingin samþykkti málið í ríkisstjórn, þó með einhvers konar fyrirvara um samþykki þingflokksins.

Vegna þessa vil ég leggja fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. dómsmálaráðherra:

Hver eru rökin fyrir aðskilnaði og toll-, lögreglu- og öryggisdeilda á Suðurnesjum?

Er fjárhagslegur ávinningur og/eða annar ávinningur að breytingunum?

Ef svo er, hver reiknaði þann ávinning út og hver er hann?

Hvaða rök eru fyrir því að færa tollstjórn frá Suðurnesjum til Reykjavíkur en ekki frá öðrum tollumdæmum um landið?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að færa lögreglustjórn frá Suðurnesjum til Reykjavíkur?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að færa lögreglustjórn almennt frá landsbyggðinni til Reykjavíkur?

Mun ráðherra taka tillit til sjónarmiða starfsmanna sem mótmælt hafa fyrirhuguðum breytingum?

Virðulegur forseti. Þetta eru spurningar mínar til hæstv. ráðherra og ég vil hér að lokum taka fram að árangurinn sem náðst hefur hjá embættinu á Keflavíkurflugvelli er stórkostlegur. Það hefur fengið viðurkenningar vegna mikils árangurs og ég tel að það sé mjög óæskilegt að gera breytingar á því sem virkar vel, sérstaklega þegar ekki er um neina heildarendurskoðun að ræða. (Forseti hringir.) Það er bara verið að pikka í eitt embætti og ég tel að það sé mjög óeðlilegt að gera það, virðulegur forseti.