135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:41]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Fjárframlög ríkisstjórnarinnar til löggæslu í þágu almennings, til grenndargæslu, til allrar löggæslu sem mestu máli skiptir í þágu borgaranna og raunverulegs öryggis þeirra hafa almennt staðið í stað undanfarin ár eða verið skert þrátt fyrir stóraukin verkefni. Á sama tíma hefur embætti ríkislögreglustjóra þanist út og útgjöld hækkað ár frá ári um hundruð milljóna í svokölluð öryggis- og varnarmálaverkefni. Ástandið í þessum grenndargæslumálum er sýnu verst á Suðurnesjum. Það liggur fyrir að verkefni lög- og tollgæslu þar hafa margfaldast og það er nöturlegt að fá fregnir af því að eftir sameiningu hafi lögreglumönnum á þessu svæði fækkað um 18. Fólk segir á svæðinu, Grindavík, Sandgerði og Vogum, að lögreglumenn þar séu að verða jafnsjaldséðir og hvítir hrafnar. Þessi samdráttur í grenndargæslu skapar óöryggi fyrir íbúa, skaðar öryggiskennd þeirra og er ávísun á aukin afbrot.

Herra forseti. Einhliða skipulagsbreytingar hæstv. dómsmálaráðherra án nokkurs samráðs eyðileggja nýlegar og afar vel heppnaðar breytingar á embættunum í Keflavík og breyta í engu þeim vanda sem íbúar og lög- og tollgæslumenn standa frammi fyrir, í engu. Það hefur ekki verið sýnt fram á það. Þessi vandi verður einungis leystur með stórauknum fjárframlögum. Hæstv. dómsmálaráðherra verður að sýna fram á hvernig skipulagsbreytingar einar sér leysa þann vanda mannafla sem blasir þarna við.

Herra forseti. Það er til vansa að hæstv. dómsmálaráðherra hefur til þessa nánast aðeins hellt olíu á eld vandamálanna á Suðurnesjum og fengið íbúa, lög- og tollgæslumenn þar upp á móti sér.