135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:49]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér tímasetningu þessarar umræðu í dag. Við ræddum þessi mál á svipuðum forsendum fyrir nokkrum vikum og ekkert nýtt hefur komið fram í málinu. (BjH: Hún hefur ekkert gert.) Það hefur ekkert komið fram í málinu. Það er vitað að stjórnarfrumvarp er í undirbúningi. Það lá líka fyrir á sínum tíma. Það er vitað að Ríkisendurskoðun er að fara yfir þessi mál samkvæmt sérstakri ósk frá þingflokki Frjálslynda flokksins. Niðurstaða á því er ekki komin. Að mörgu leyti hefði það verið heppilegra og hefði gefið þessari umræðu meiri dýpt ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefði beðið eftir því að þessar niðurstöður lægju fyrir áður en hún kallaði eftir umræðu um frumvarp sem er ekki komið fram eða um mat Ríkisendurskoðunar sem ekki heldur er komið fram. Því miður finnst mér þessi umræða einkennast töluvert mikið af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum eins og umræðan um daginn. Það væri hugsanlega ekki svo ef við hefðum þau gögn í höndunum, annaðhvort „konkret“ frumvarp til að ræða um eða þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar sem við vitum að er á leiðinni. Þessi umræða er ekki til þess fallin að leysa úr þeim málum sem eru fyrir hendi á Suðurnesjum. Hún er einhvers konar upphlaup eins og mörg ummæli hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hafa bent til í dag.

Við vitum að þetta embætti (Gripið fram í.)hefur ítrekað farið fram úr fjárlögum. Fjárlaganefnd hefur þurft að takast á við það margoft á undanförnum árum og reynt hefur verið að leysa úr þeim málum. Fjárveitingar hafa þó ítrekað ekki dugað fyrir rekstrarkostnaði og þess vegna hefur þurft að taka á málum. Þarna er skipan mála ekki með þeim hætti sem við lifum almennt við í landinu (Forseti hringir.) og þá þýðir ekki að benda á lítil embætti úti á landi þar sem kannski eru einn eða tveir tollverðir. Við erum ekki að tala um sambærilega hluti. (Forseti hringir.) Sambærilegt kerfi er fyrst og fremst í Reykjavík þar sem fjöldi tollvarða vinnur,(Forseti hringir.) tollgæslan er aðskilin frá löggæslunni (Forseti hringir.) og það er sú hugmynd sem frumvarpið mun ganga út á.(Forseti hringir.) En ég held að hv. þingmenn ættu að bíða eftir því að fram komi upplýsingar,(Forseti hringir.) frumvörp og skýrsla Ríkisendurskoðunar sem beðið hefur verið um áður en menn endurtaka umræðuna sem átti sér stað 1. apríl sl.