135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Málefni löggæslunnar sem við ræðum um er tvíþætt: Annars vegar er skipuleg sveltistefna ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. dómsmálaráðherra gagnvart almennri löggæslu í landinu og hins vegar eru þær meintu skipulagsbreytingar sem á að keyra í gegn og það skipulagslega rugl sem hefur verið í gangi á undanförnum missirum í löggæslumálum, líka styrkt af hæstv. dómsmálaráðherra.

Það er rangt og ómaklegt af hæstv. dómsmálaráðherra að segja hér að embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hafi farið fram úr fjárlögum án þess að búið hafi verið að gera grein fyrir því á Alþingi að fjárveitingar vantaði til eðlilegs starfs. Við afgreiðslu fjárlaga í haust lá þetta alveg fyrir og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram breytingartillögu við fjárlögin sem tók á þeim augljósa vanda sem lá fyrir. Forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er mjög furðuleg. Annars vegar er valið að efla og styrkja embætti ríkislögreglustjóra — og ég tek undir orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að það mál hafi þróast á allt annan veg en ráð var fyrir gert og allt á kostnað almennrar löggæslu. Hins vegar eru það áherslur Samfylkingarinnar á að setja upp heræfingar, varnarmálastofnun og fá erlenda heri til þess að stunda heræfingar gegn einhverri óskilgreindri ógn erlendis frá. Þetta horfa hin almenna löggæsla og almennir borgarar á. Væri ekki nær að taka þó ekki væri nema einn milljarð af þessum 1,5 milljörðum sem á að verja til heræfinga (Forseti hringir.) og hernaðarútgjalda til að styrkja almenna löggæslu í landinu, herra forseti?