135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Rétt upp úr klukkan ellefu í morgun hófst umræða um umdeilt frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um nýja verslunarmiðstöð í heilbrigðiskerfinu. Það er deilt um tvennt. Það er deilt um innihald frumvarpsins og það er deilt um málsmeðferð. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að kappkostað væri að keyra málið í gegn fyrir þinglok. (Gripið fram í: Afgreiða.)

Við höfum miklar efasemdir um þessa málsmeðferð innan stjórnarandstöðunnar mörg hver, greiddum meðal annars atkvæði gegn því að afbrigði yrðu veitt til þess að taka málið á dagskrá, en samkvæmt þingskapalögum verður að greiða atkvæði um afbrigði komi mál þetta seint fram eða eftir 1. apríl.

Síðan upplýsir formaður heilbrigðisnefndar þingsins, hv. þm. Ásta Möller, að hún hafi gert sitt til að flýta málsmeðferðinni því upp á sitt eindæmi hafi hún tekið ákvörðun um að senda málið til umsagnar út í þjóðfélagið (Forseti hringir.) áður en málið er komið á dagskrá, hvað þá (Forseti hringir.) að það hafi komið fyrir heilbrigðisnefnd þingsins.

Ég legg til, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að þetta mál verði (Forseti hringir.) umsvifalaust tekið af dagskrá í dag og (Forseti hringir.) komi ekki aftur til umræðu (Forseti hringir.) fyrr en í næstu viku.