135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Lengi getur eitthvað nýtt borið við á Alþingi. Ég hef aldrei áður svo vitað sé orðið vitni að því að formaður í nefnd telji sig hafa til þess vald og umboð að senda mál út til umsagnar áður en málið er komið á forræði nefndarinnar, meira að segja áður en búið er að taka það fyrir á Alþingi. Það mun hafa verið upplýst hér að þetta hafi hv. þm. Ásta Möller gert áður en Alþingi var meira að segja búið að samþykkja að taka málið fyrir því til þess þurfti afbrigði.

Það er alveg skýrt í 27. gr. þingskapalaga að það eru lög í landinu að nefnd öðlast ekki forræði yfir máli fyrr en búið er að vísa því þangað að lokinni 1. umr. Þá tekur nefndin, nefndin, ekki formaðurinn, til athugunar hvernig með málið skuli farið. Og í 28. gr. segir að nefnd geti við umfjöllun máls óskað skriflegra umsagna um það frá aðilum utan þings. Þetta bréf eða útsending hv. þm. Ástu Möller sem hefur ekkert meira um málið að segja fyrr en það er komið til nefndarinnar heldur en hver annar þingmaður er því markleysa. Hún á að kalla það (Forseti hringir.) til baka, biðjast velvirðingar á því og það á að senda með venjulegum hætti málið út til umsagnar þegar eða (Forseti hringir.) ef nefndin fær það til umfjöllunar.