135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:15]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki lítið og léttvægt mál. Þetta snýst um þingsköp Alþingis, þetta snýst um virðingu, þetta snýst um sjálfstæði þessarar stofnunar. Þetta snýst um það að framkvæmdarvaldið geti ekki komið inn með frumvarp og haft sterkan þingmeirihluta sér til fulltingis og komið málum í gegn eins og þeir þingmenn sem styðja ríkisstjórnina vilja án þess að fara eftir þingsköpum. Það er því alvarlegt mál að fara ekki eftir 27. og 28. gr. Mál er ekki komið á valdsvið nefnda fyrr en það hefur verið rætt í þinginu og vísað til nefndarinnar og það er nefndarinnar að ákveða hvort málið sé sent út til umsagnar eða aðilar kallaðir fyrir. Ég hvet hv. þm. Ástu Möller til að sjá sóma sinn í því að kalla umrætt bréf til baka og vísa til umsagnar nefndarinnar með þá umsagnaraðila sem nefndin velur.