135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um tvö mál, annars vegar hvort halda eigi áfram umræðu um dagskrármálið. Því er til að svara af minni hálfu að ég sé enga ástæðu til annars en að umræðu verði haldið áfram. Málið hefur verið samþykkt á dagskrá með lögmætum hætti þannig að engar forsendur eru fyrir því að leggja stein í götu þess að umræðan geti farið fram.

Hitt málið varðar síðan umfjöllun um þetta mál þegar það kemur til heilbrigðis- og trygginganefndar eða heilbrigðisnefndar eins og hún heitir núna. Það er nefndarinnar sjálfrar að ákveða um það hvernig hún fer með málið og mun auðvitað vera vísað til hennar héðan frá þinginu og nefndin koma saman og ákveða hvað hún gerir.

Það sem hefur vakið upp deilur er frumkvæði formanns nefndarinnar að senda málið út til umsagnar sem hann hefur gert sem formaður nefndarinnar, það getur ekki verið neinn vafi á því. (SF: Nei, er það?) Nei, ég mæli ekki með því, virðulegi forseti, jafnvel þó að fyrrverandi ráðherra segi að það sé allt í lagi með það.