135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu um þetta mál og er eiginlega alveg dolfallinn yfir því hvernig þetta ber allt saman að. Hér hefur því verið haldið fram að málið hafi verið sent af hálfu formanns heilbrigðisnefndar, hv. þm. Ástu Möller, til umsagnar til að flýta fyrir þingstörfum og umfjöllun þingsins um málið. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt að hann vilji vandaða umfjöllun um þetta frumvarp. Engu að síður kemur málið seint inn í þingið. Ég trúi því vel að hæstv. heilbrigðisráðherra vilji vandaða umfjöllun en það er augljóst að sá málatilbúnaður og sú málsmeðferð sem hér hefur verið höfð í frammi er ekki til að flýta fyrir þessu máli. Menn hljóta að velta því fyrir sér, þegar málið var tekið inn með afbrigðum í atkvæðagreiðslu fyrr í dag, hvort meiri hluti stjórnarflokkanna vissi þá að frumvarpið hafði þá þegar verið sent til umsagnar af hálfu formanns heilbrigðisnefndar. Var það með vitund og vilja stjórnarflokkanna, þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmanna Samfylkingarinnar?