135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:26]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er búið að hleypa mjög illu blóði í þessa umræðu með því að ástunda vinnubrögð eins og raun ber vitni. Í rauninni er það ekki afstaða okkar framsóknarmanna að þetta sé afleitt mál, a.m.k. ekki á þessari stundu. Við viljum alla vega fá umfjöllun um málið í nefnd áður en við tökum þá ákvörðun að beita okkur gegn því vegna þess að í rauninni er þar ýmislegt sem fellur að því sem við hefðum gjarnan viljað sjá gerast. Hér hefur verið vitnað til svokallaðrar Jónínunefndar sem kennd er fyrrverandi ráðherra, Jónínu Bjartmarz, sem leiddi ákveðið starf sem ég tel hafa verið gott og skilað ýmsu sem hægt er að nýta. Að því leyti til er það mjög alvarlegt ef vinnubrögð og yfirgangur stjórnarsinna og ríkisstjórnar verða til þess að málið fær á sig þann svip að það sé algjörlega ótækt. Ég vil alla vega ekki taka þá afstöðu á þessari stundu að þetta sé ótækt mál.

Það má kannski segja að sporin hræða, því að það hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra, og ekki bara hann heldur miklu fleiri einstaklingar sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum, hefur hagað störfum sínum á undanförnum mánuðum og gefið undir fótinn með mikinn einkarekstur og miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu, grundvallarþáttum heilbrigðiskerfisins, gerir það að verkum að maður óttast að þetta mál geti leitt af sér miklar og óæskilegar breytingar. Það getur alla vega gert það því að málið er í rauninni galopið þannig lagað séð að ómögulegt er að átta sig á við lestur frumvarpsins hversu langt verður gengið í sambandi við einkarekstur eða einkavæðingu. Einkavæðing er orð sem kemur fyrir í samþykktum Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi í sambandi við heilbrigðiskerfið og það er ekki af tilviljun. Því má segja að með samþykkt þessa frumvarps sé þingið í raun að veita hæstv. heilbrigðisráðherra gríðarlega mikið vald sem við vitum ekki hvernig farið verður með. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að ég væri miklu rólegri við að samþykkja svona frumvarp ef framsóknarmaður færi með málaflokkinn. Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart. (Gripið fram í.) Ég tel að það væri í raun allt annað mál.

Mörg falleg orð er að finna í greinargerðinni og ég efast í rauninni ekki um að þeir sem ráða för ætli sér einhverja hluti sem þeir telja að verði til hagsbóta fyrir hinn almenna borgara og fyrir heilbrigðiskerfið sem slíkt en það er náttúrlega pólitískt mat manna á því, ýmissa, að það sé ekki það sem koma skal og að hið félagslega heilbrigðiskerfi sem rekið hefur verið hér með ágætum í mörg ár sé í raun í hættu.

Mikið er gert úr því að verið sé að styrkja stjórntæki sem heilbrigðisráðherra hafi yfir að ráða. Ég vitna hér t.d. til ákvæða í greinargerð en þar stendur, með leyfi forseta:

„Því þarf ráðherra að geta falið sérstakri stjórnsýslustofnun að framfylgja stefnu og ákvörðunum ráðuneytisins og gera um þær áætlanir byggðar á faglegum ákvörðunum og fylgja þeim eftir svo að stefna og forgangsröðun ráðherra og ríkisstjórnar nái fram að ganga.“

Það er sem sagt álit ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra að það fyrirkomulag sem er í dag og þau lög sem gilda í dag dugi ekki til þess að ná fram stefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. Og það er vissulega athyglisvert að hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar virðast komnir með eitthvert óbragð í munninn út af þessu öllu saman miðað við ýmis orð sem þeir hafa látið falla upp á síðkastið. Þá er ég sérstaklega að tala um hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra. Til dæmis sagði hæstv. félagsmálaráðherra nýlega að Samfylkingin væri engin framlenging á Sjálfstæðisflokknum í velferðar- og heilbrigðismálum og að allt tal um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins sé út í hött. Enn fremur sagði hæstv. félagsmálaráðherra, með leyfi forseta:

„Við viljum ekki heldur að einkaaðilar geti dregið út úr Landspítalanum læknisverk sem þeir líta á sem arðsöm og spítalinn standi eftir með annað.“

En þetta er einmitt það sem verið er að leggja drög að í Sjálfstæðisflokknum. Ég held því að hæstv. ráðherrar hefðu kannski átt að hafa varann á áður en þeir samþykktu framlagningu þessa máls miðað við þau orð sem voru látin falla eftir að málið kom fram.

Þegar talað er um Landspítalann er okkur náttúrlega ofarlega í huga hvernig þar var gengið fram gagnvart forstjóranum og hann látinn hætta. Yfirregnhlíf rekstrar Landspítalans er nú fyrrverandi þingmaður, Vilhjálmur Egilsson, og hann hefur ekki útilokað það að Landspítalanum verði breytt í hlutafélag, hann hefur látið að því liggja að allar leiðir séu skoðaðar og allt komi til greina. Vissulega hefur verið reynt að bera þessi orð til baka af hálfu annars framkvæmdastjóra spítalans, að þetta standi ekki til, en þessi orð voru engu að síður látin falla.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði líka nýlega að engin áform séu uppi um það í ríkisstjórninni að fara í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og lét einnig þau orð falla að Samfylkingin væri engin framlenging. Það er greinilega kominn af stað titringur í samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingunni, um það að kannski búi eitthvað meira að baki en látið var í ljós þegar þetta mál fór loksins í gegnum ríkisstjórnina sem var náttúrlega allt of seint miðað við það að þingið fái örfáa daga til að fjalla um þennan lagabálk sem er ekkert smáræði.

Förum aðeins yfir það hver saga málsins er og hvernig ríkisstjórnin hefur stigið skrefin sem eru aðdragandi þess að við fjöllum nú um þetta frumvarp. Það byrjaði náttúrlega á því að það kom fram frumvarp fyrir jólin og í 18. gr. þess er með örfáum orðum skotið stoðum undir þessa nýju stofnun, sjúkratryggingastofnun, og gefin heimild til þess að skipa stjórn og síðan forstjóra. Búið var að auglýsa starf forstjóra stofnunarinnar áður en frumvarpið kom fyrir almannasjónir og áður en það kom fram á hv. Alþingi sem ég hef aldrei sagt að væri ólöglegt en mér finnst það óboðlegt. Við framsóknarmenn sátum hjá við afgreiðslu 18. gr. í frumvarpinu um almannatryggingar og tilflutning verkefna vegna þess að okkur fannst það vera hæpið að byggja heila stofnun sem gæti farið að starfa í raun, alla vega ráðið sér forstjóra, samkvæmt einni örlítilli lagagrein án þess að Alþingi hefði fjallað um stofnunina sem slíka. Við greiddum hins vegar atkvæði gegn gildistökuákvæði þess frumvarps vegna þess að lögin áttu í raun að taka gildi örfáum dögum eftir samþykkt þeirra. Það var allt gert með miklum hraða sem er yfirleitt ekki til bóta.

Hvers vegna liggur svona mikið á? Það er mér algjörlega ómögulegt að skilja vegna þess að hvaða máli skiptir það fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir notendur þess og fyrir landsmenn hvort þessi lög öðlast gildi 1. september eins og lagt er til í þessu frumvarpi eða um áramót? Það er yfirleitt ekki síðra að miða við áramót. Því höfum við lagt til að málið verði til umfjöllunar í nefndinni nú í þessum mánuði en verði hins vegar tekið fyrir aftur fyrir í september og gert að lögum í þeim mánuði. Það eru miklu meiri líkur á að þannig næðist samstaða, meiri samstaða um málið sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á að ná um sín mál í sínum mikilvæga málaflokki, en það er eins og orð og athafnir fari ekki saman. Sú hraðferð sem á að vera á málinu er náttúrlega ekki boðleg. Það er alveg óhætt að segja það. Og svo það sem við höfum verið að fjalla um í dag sem varðar framgöngu formanns heilbrigðisnefndar sem sendi málið í eigin nafni til umsagnar áður en það var þingtækt og það var ekki vitað á þeim degi sem það var sent út hvort það yrði yfirleitt tekið til umfjöllunar á Alþingi. Það var ekki vitað, það er aldrei hægt að ákveða fyrir fram hvernig þingmenn greiða atkvæði. Það er nú sá grundvallarréttur sem þingmenn hafa, að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Þetta gerir málið allt saman enn tortryggilegra og vinnubrögðin alvarlegri.

Hæstv. forseti. Nefndin fer væntanlega yfir þetta mál og sendir til umsagnar í dag eða á morgun samkvæmt þingskapalögum og svo verður að koma í ljós hvað sagt verður af hálfu þeirra sem um það mál fjalla í umsögnum.

Það er mikið talað um að sótt sé fordæmi og upplýsingar til frænda okkar á Norðurlöndum og m.a. til Svíþjóðar. Mér finnst það ekki slæmt en mér finnst það bara dálítið skoplegt af því að sjálfstæðismenn hafa ekki verið sérstaklega hrifnir af því kratafyrirkomulagi sem hefur verið byggt upp á Norðurlöndunum og sérstaklega í Svíþjóð. Ég hef a.m.k. oft heyrt þau orð af vörum ýmissa háttsettra í Sjálfstæðisflokknum. Við skulum ekki útiloka að það geti verið hægt að sækja ýmsa góða hluti til Svíþjóðar en hver er kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið í Svíþjóð borið saman við Íslandi? Það er ekki mikill munur þar á ef við horfum á það sem hlutfall af landsframleiðslu. Hjá okkur eru það 9,5% en hjá Svíum 9,1%. Kannski er alls ekki meiningin að spara peninga með þessu fyrirkomulagi, kannski býr eitthvað allt annað að baki, t.d. það að koma einkaaðilum inn í heilbrigðiskerfið sem geta síðan farið að mata krókinn. Það er ekki ólíklegt að það skipti einhverju máli.

Þetta er samanburðurinn á kostnaði við þessi kerfi og þá verðum við að hafa í huga að við erum 300 þúsund manna þjóð en Svíar eru um 9 milljónir og ættu því að geta gert ýmsa hluti með meiri hagræðingu en við sem búum í strjálbýlu landi og það er náttúrlega eitt af því sem gerir kerfið okkar dýrara en ella. Við getum ekki boðið upp á það að horfa bara til mannfjölda á stöðunum. Það höfum við aldrei gert og ég vona að ekki verði tekið upp á því núna. Við tölum um að veita landsmönnum góða þjónustu hvar sem þeir búa á landinu. Þess vegna var heilsugæslan byggð upp eins og raun ber vitni, það var byrjað á því að byggja hana upp á landsbyggðinni áður en hún var byggð upp í Reykjavík sem vissulega hefur þann galla að Reykvíkingar eru að mínu mati ekki nægilega duglegir að nota þá þjónustu. Þeir hafa bókstaflega ekki vanist því. Og kannski stæðum við betur að vígi ef hægt hefði verið að koma heilsugæslunni á Reykjavíkursvæðinu á fyrr. En þetta er fyrirkomulag sem landsbyggðarmenn nota og þykir mjög gott og þeir treysta mjög vel á heilsugæslukerfið. Mér þótti það ekki gott, og ég veit ekki hvort það er tilviljun eða hvort það er úthugsað, en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er ekki eitt orð um heilsugæsluna, þennan grundvallarþátt heilbrigðiskerfisins. Hvort það boðar stefnubreytingu veit ég ekki, ég vona að svo sé ekki, en það væri gott að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra.

Svo mætti náttúrlega nefna atriði eins og eftirlitið. Það eru mjög margir sem fást við eftirlit samkvæmt þessu frumvarpi. Fyrir utan þessa nýju stofnun verður það náttúrlega landlæknir sem hefur þar hlutverki að gegna, ríkisendurskoðandi o.s.frv. Það getur því orðið eitthvað skrautlegt að mínu mati ef það verður ekki sett nákvæmar niður í reglugerð hvernig eftirlitið með þessu fyrirbæri öllu saman á að vera. Þá veltir maður líka fyrir sér talandi um heilsugæsluna, svo ég komi aftur að henni: Hvaða hugmyndir eru uppi t.d. í sambandi við heilsugæsluna á Reykjavíkursvæðinu? Á að kljúfa hana upp og fara út í sjálfstæðar rekstrareiningar á hverri stöð fyrir sig? Það er eitt af því sem maður gæti óttast að yrði.

Eins og áður sagði, hæstv. forseti, er mörgum spurningum ósvarað í frumvarpinu og vonandi fáum við svör við þeim í heilbrigðisnefnd. En á þessu (Forseti hringir.) stigi málsins ætla ég hvorki að lýsa stuðningi við málið né lýsa algjörri andstöðu við það.