135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:34]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki í ræðu minni að fólk hefði ekki skilið spurninguna. Ég sagði að fólk gerði ekki greinarmun á því (Gripið fram í.)hvort ríki eða einkaaðilar veiti þjónustuna þegar það borgar það sama og viðmótið er mjög svipað.

Nú mátti skilja á hv. þingmanni að forsenda spurningarinnar eða rannsóknaraðilans væri að það yrði tvöfalt heilbrigðiskerfi, (ÁI: Nei, ég var að tala um tannlækningarnar.) eitt fyrir ríka — það mátti skilja það á hv. þingmanni. Um það er ekkert að ræða, það eru engin áform í þá veru. Til þess að hnykkja aðeins á afstöðu fólks gagnvart þessari spurningu vill nú til að ég er með þessa skýrslu fyrir framan mig. Í henni kemur fram að 50% svarenda telja að endurhæfingarstöðvar eigi fyrst og fremst að vera reknar af hinu opinbera en 44% af einkaaðilum. Reyndin er hins vegar sú að 90% af endurhæfingarþjónustu er á höndum einkaaðila. Það er m.a. talað um Reykjalund og NLFÍ, endurhæfingarstofnanir eru um 90% í höndum einkaaðila. Satt að segja skoðaði ég þessa skýrslu af áhuga og komst að þeirri niðurstöðu að þarna væri verið að rugla saman ákveðnum þáttum.

Aðalatriðið er að með því að auka samstarf við einkaaðila gefum við fólki ákveðna valkosti um þjónustu. Við gefum fagfólki tækifæri til þess að vinna á öðrum stöðum en hjá ríkinu, þ.e. fleiri valkosti um hvar það starfar, og við erum að auka gæði þjónustunnar. Það er markmiðið og einnig að nýta betur fjármagnið.

Eins og kom fram í ræðu minni hér áðan og var niðurstaða í skýrslu svokallaðrar Jónínunefndar, er, samkvæmt reynslu Svía, með þessum skipulagsbreytingum einum (Forseti hringir.) hægt að ná fram 10% fjárhagslegum ávinningi.