135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:36]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða miklum hluta af tíma mínum í að ræða vinnulag og vinnubrögð, það var gert hér fyrr í dag. Ég vil þó vekja athygli á því að þetta frumvarp var boðað í desember. Það var kallað eftir því að tiltekin mál biðu þar til það væri komið fram en við þeirri sanngjörnu ósk var ekki orðið. Síðan var málið tekið inn með afbrigðum í morgun, fimm mánuðum síðar.

Ég vil vekja athygli á því að áður en til þessa þingfundar kom í morgun var samkomulag um vinnulag í heilbrigðisnefnd. Þegar fyrirhugað var í síðustu viku að taka málið inn með afbrigðum á fimmtudegi varð samkomulag um að haldinn yrði fundur í hv. heilbrigðisnefnd til þess að senda málið út til umsagnar. Eins og hér hefur komið fram hefur hv. þm. Ásta Möller sent beiðni um umsagnir upp á sitt eindæmi og hún hefur með því sett vinnulag og vinnu heilbrigðisnefndar í mikinn voða að mínu viti. Ég vara við því að áfram verði gengið svo fram sem hér er byrjað á, að málið er tekið inn með afbrigðum og hv. þingmaður tekur að sér að vera allt í senn Alþingi Íslendinga og heilbrigðisnefnd þingsins. Ég spyr hvenær hv. þm. Ásta Möller hyggst taka málið úr heilbrigðisnefndinni.

Ég vil vekja athygli á því að mjög mikil sátt hefur verið um heilbrigðisþjónustuna í þessu landi. Sú sátt er rofin, allir skynja að heilbrigðiskerfið okkar er á krossgötum og heilbrigðisþjónustan er í hættu, m.a. og ekki síst vegna einkavæðingaráforma Sjálfstæðisflokksins sem Samfylkingin veitir brautargengi í þessari ríkisstjórn.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir kallar á víðtæka umræðu um heilbrigðisþjónustuna. Við höfum oft rætt um grundvöll heilbrigðisþjónustunnar í vetur en það hefur yfirleitt verið í stuttum andsvaratímum eða óundirbúnum fyrirspurnum þar sem lítið tóm hefur gefist til þess að fara ofan í hlutina. Maður hlýtur að spyrja sig þegar mál sem þetta er komið á dagskrá hvert brýnasta verkefnið er á sviði heilbrigðismála í landinu. Við vitum að almennt er heilsufar Íslendinga mjög gott og öfundsvert að mati OECD en það þýðir ekki að það séu ekki mörg verkefni óleyst. Ég vil fyrst nefna aðbúnað og laun fólks sem sinnir störfum í heilbrigðisþjónustunni. Laun og aðbúnaður hjúkrunarfólks og umönnunarfólks eru því miður mjög léleg. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli sér að efna öll önnur loforð, kosningaloforð og loforð stjórnarsáttmála, áður en kemur að því að útrýma kynbundnum launamun sem stendur þessari starfsemi, bæði á sjúkrahúsunum og öðrum heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum, fyrir þrifum. Það verður að hækka laun og bæta aðbúnað á þessum stöðum þannig að það verði eftirsóknarvert að vinna þar.

Ég spyr hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvað líður efndum á því loforði að útrýma kynbundnum launamun sem við vitum að þarf að byrja á eða þarf að vera mjög framarlega, í þeim stéttum sem vinna við heilbrigðisþjónustu?

Í öðru lagi vil ég nefna sem brýnt verkefni rekstrar- og nú stjórnunarvanda á sviði heilbrigðisþjónustunnar og reyndar líka Landspítalans. Ég vek athygli á því að yfirráðherra Landspítalans, Vilhjálmur Egilsson sem stýrir nefnd ráðherra til þess að taka út rekstur spítalans, hefur sagt að það komi vel til greina að gera spítalann að opinberu hlutafélagi. Annar af tveimur forstjórum spítalans nú um stundir hefur sagt að það þurfi að skoða það mál mjög vel. Fram hefur komið að nefnd Vilhjálms Egilssonar er ætlað að skila niðurstöðum í júní. Nú vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hyggst láta kalla heilbrigðisnefnd Alþingis saman til þess að kynna þá skýrslu þegar hún er tilbúin en það mun væntanlega ekki verða fyrir þinglok í vor.

Í þriðja lagi vil ég nefna heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu sem brýnt verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu. Er ég þá ekki að gera lítið úr vanda sem getur verið víða um landsbyggðina. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu búa því miður við lakari þjónustu sem fyrir vikið verður ríkinu dýrari vegna skorts á heilsugæslulæknum og þess stóra, þunga batterís sem heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er.

Hæstv. ráðherra skipaði nefnd til þess að skoða heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vetur. Það var upplýst þá að hún ætti að skila tillögum í aprílmánuði. Sá mánuður er nú liðinn sem kunnugt er og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær fyrirhugað er að þessi nefnd skili störfum og hvort fyrirhugað sé að kynna niðurstöður hennar fyrir heilbrigðisnefnd þingsins.

Í fjórða lagi nefni ég aðbúnað aldraðra. Það er alveg greinilegt, frú forseti, að þar þarf mikilvirkt átak. Ég ætla ekki að nota ræðutíma minn hér í að lýsa þeim aðbúnaði og aðstæðum sem þar eru uppi. Nýlega var boðinn út rekstur einnar deildar fyrir aldraða á Landakoti sem hafði verið lokuð um hríð og ég spyr: Hvað er í pípunum til þess að bæta aðstöðu aldraðra hjúkrunarsjúklinga í landinu?

Það má til sanns vegar færa að ekki er allt nýtt í þessu frumvarpi. Hér er víða um endurtekið efni að ræða og margt mjög gott um það að segja, annað hvort væri nú, allur tryggingapakkinn okkar er auðvitað góður og gegn. En það sem hræðir er hverjir eru við stjórnvölinn. Það ákvæði getur hafa virst ósköp sakleysislegt sem var í heilbrigðislögunum sem samþykkt voru hér sl. vor og fjallaði um að setja ætti á fót stofnun til þess að annast kaup og sölu á heilbrigðisþjónustu. En þegar það er svo sett í gegn með þeim formerkjum að í stjórnarsáttmála er talað um að stefna eigi að fjölbreyttari rekstrarformum í heilsugæslunni og til þess lagt sérstakt fjármagn í fjárlögum, þá spyr maður auðvitað hvað hér sé á ferðinni. Það er mjög brýnt að menn átti sig algjörlega á því hvað um er að ræða þegar einkavæðing er á ferðinni í heilbrigðisþjónustu okkar sem byggir á félagslegu kerfi eins og við þekkjum það best frá Norðurlöndunum og okkur sjálfum hér áratugum saman. Það hefur sannarlega skilað okkur miklu.

Hér hefur oft verið tekist á í vetur um hvað einkavæðing er og menn hafa gleymt sér í ýmiss konar orðhengilshætti og frösum og vænt okkur þingmenn Vinstri grænna um að vita ekki um hvað við tölum. Ég vek athygli á því að í fræðilegri umræðu er talað um einkavæðingu og þá er átt við þrennt: Það er í fyrsta lagi átt við sölu á opinberri stofnun eða fyrirtæki, eignasölu beinni og hreinni eins og við þekkjum hana, hvort sem við viljum tala um hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja eða bara Símann í því sambandi. Í öðru lagi er um að ræða tilfærslu á rekstri eða framkvæmd frá hinu opinbera til einkaaðila, þ.e. svokallaða einkaframkvæmd eða einkarekstur. Í þriðja lagi er um að ræða tilfærslu fjármögnunar frá hinu opinbera til einkaaðila, þ.e. í þessu tilfelli sem við erum að tala um hér, sjúklingaskatta. Greiðslubyrðin færist frá hinu opinbera til einkaaðilanna, í þessu tilfelli sjúklinganna.

Ég vil vekja athygli á því, frú forseti, að í greinargerð frumvarpsins á bls. 31 er talað um að hafa verði í huga að grundvallarmunur sé á einkavæðingu rekstrar og einkavæðingu fjármögnunar. Mér sýnist því að þeir sem skrifuðu greinargerðina séu mér fyllilega sammála um þennan fræðilega grunn sem er og þarf að leggja til grundvallar þegar menn tala um einkavæðingu. Það hefur verið nokkur einkavæðing í íslenska heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum að því er varðar einkaframkvæmd og einkarekstur en einnig einkafjármögnun vegna þess að hlutdeild sjúklinga í rekstri heilbrigðisstofnananna hefur vaxið á undanförnum árum. Það sem mér finnst miður í því sambandi er að þessi einkavæðing hefur átt sér stað skipulagslítið og tilviljanakennt án þess að fyrir hafi legið mat á því hvort hún mundi skila einhverju og þá hverju.

Ég vil minna á að einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustu, þ.e. einkarekstri, geta fylgt ýmiss konar ókostir og hafa fylgt ókostir. Eitt af því er hækkun þjónustugjalda, hækkun sjúklingaskatta. Annað er að þjónustusamningar hins opinbera við einkaaðila geta leitt til ósveigjanleika í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. að upp geta komið nýjar þjónustuþarfir á samningstímanum. Við skulum bara muna eftir að samningurinn við Sóltún er til 25 ára og ekki er hægt að segja honum upp nema um stórfelldar vanefndir sé að ræða. Þetta býður upp á ákveðinn ósveigjanleika. Í heilbrigðisþjónustunni okkar þekkjum við líka að þeir þættir sem hafa verið einkavæddir og sendir út á markaðinn — þar er oft veitt ósjálfbær þjónusta. Oft lenda erfiðu tilfellin og jafnvel meðferðarmistök einkaaðilanna hjá opinberum þjónustuaðilum. Þeim er stundum vísað til þeirra eða inn á stóru spítalana.

Að lokum vil ég nefna að einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustunni getur leitt til ósamhæfðrar og ósamfelldrar þjónustu, þ.e. það verða úr þessu svokallaðar punkta- eða partalækningar sem eru gerðar án tillits til heildarinnar og ekki batnar það ef margir ótengdir aðilar veita þjónustu í samkeppni hver við annan. Almennt má líka segja um einkavæðingu af þessum toga að hún dregur ekki úr heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna en getur þvert á móti aukið hann. Þetta eru hlutir sem lítið hafa verið til umræðu hér og allra síst hjá þeim sem draga vagninn í einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni.

Það er annað sem gerist varðandi einkafjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. varðandi sjúklingaskattana í heilbrigðiskerfum eins og okkar, að hækkaður tilkostnaður sjúklinga getur leitt til frestunar eða jafnvel niðurfellingar á heimsóknum til þjónustuaðila. Þetta þekkjum við best úr tannlækningunum. Þar af leiðir að einkafjármögnun af þessu tagi — og ég minni á að þetta er hluti einkavæðingar, menn skulu ekkert loka augunum fyrir því — getur valdið ójöfnuði í aðgengi að þjónustu og þar með grafið undan þeirri góðu heilbrigðisþjónustu sem við höfum.

Frú forseti. Það er óskaplega stuttur tími sem gefst hér við 1. umr. til þess að fara ítarlega ofan í þetta mikla mál. Ég taldi nauðsynlegt vegna umfangs þess og pólitíkurinnar og stefnunnar sem það boðar, í greinargerðinni sérstaklega, að ræða almennt um heilbrigðisþjónustuna og þær stefnur og strauma sem nú ógna þeim góða grunni sem heilbrigðisþjónustan okkar stendur á.