135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:59]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason getur ekki hvort tveggja í senn skammað mig, sem hér stend, fyrir að ræða ekki efnisatriði frumvarpsins og einnig sagt að það sem ég hafi sagt fjalli um efnisatriði frumvarpsins.

Ég hef hér — að gefnu tilefni, æ ofan í æ hefur verið kallað eftir skilgreiningum okkar Vinstri grænna á einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni — rakið fræðilegar forsendur í þeirri umræðu og bent á að einn af ókostum einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu er einkafjármögnunin sem bent er á í greinargerð með frumvarpinu, (ÁPÁ: Þetta eru rangfærslur.)og ég vísaði sérstaklega í á bls. 31 í greinargerðinni að mig minnir. (ÁPÁ: Í hverju felast sjúklingaskattar?) Sjúklingaskattar eru það sem í þessum fræðum sem ég var að vísa til er einkafjármögnun í heilbrigðisþjónustu, þ.e. þegar greiðslubyrðin er flutt frá hinu opinbera yfir á almenning. Það köllum við á íslensku sjúklingaskatta. (Heilbrrh.: Hver er að gera það?)

Frú forseti. Það er búið að snúa þessum þingsköpum þannig að maður fær 15 mín. til þess að ræða mjög stórt og mikið mál. Ítrekað hefur verið kallað eftir því í allan vetur að við Vinstri græn gerðum grein fyrir afstöðu okkar og grunnskilgreiningum í þessu máli og, frú forseti, ég tel mig hafa gert það hér. Það tók bara þennan tíma, það verður bara að segjast eins og er, og í seinni ræðu minni í dag verður að gefast tími til að fara efnislega í frumvarpið.