135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:29]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kalla það ekki samræmi í atkvæðagreiðslu ef menn velja hvenær þeir ætla að hleypa frumvarpi í gegn háð skilyrðum og hvenær ekki. Að það sé efnisinnihald frumvarpsins sem eigi að ráða hverju sinni, það þykja mér lítt haldbær rök. En til að svara hv. þm. Þuríði Backman, hæstv. forseti, þá er þetta frumvarp afar einfalt. Það er sett fram til að bæta heilbrigðiskerfið í landinu og stóran hluta þessa frumvarps ætti þingheimur og þeir sem hér hafa setið lengi að þekkja en það er hluti sjúkratrygginga sem kemur úr almannatryggingakaflanum. Það er afar einfalt, hæstv. forseti. En ég kalla það ósamræmi í atkvæðagreiðslu og nefnd, og þingmenn ekki sjálfum sér samkvæmir, ef það er innihald frumvarpanna sem á að skipta máli, þá erum við farin að tala um pólitík, þá erum við ekki að tala um þingsköp.

Við skulum halda okkur við þingsköpin þegar við ræðum um þingsköp og halda okkur við pólitík þegar við ræðum um pólitík. Það er þannig sem þetta á að vera. Ég ítreka enn og aftur, hæstv. forseti, að ég tel að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi farið gegn þingsköpum í dag þegar hún krafði hæstv. heilbrigðisráðherra um svör í andsvari við hv. þm. Árna Pál Árnason. En það virðist vera þannig að stundum má maður og stundum má maður ekki. Þetta er í mínum huga geðþóttaákvörðun og slíkt hefur mér aldrei fallið í geð.