135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:33]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingsköp eru þingsköp og það er algerlega klárt í mínum huga að annaðhvort heldur maður sig við þau eða maður fer á skjön við þau. Maður gerir það ekki stundum, eins og hv. þm. Þuríður Backman segir hér, eftir því hvert innihald frumvarpsins er og skammast síðan yfir því að ekki sé farið að þingsköpum.

Ég kalla það enn geðþóttaákvörðun að ákveða að hleypa frumvarpi í gegn af því að það hentar umræðunni en hleypa því ekki í gegn af því að það hentaði líka umræðunni hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna. Þetta er í mínum huga geðþóttaákvörðun og ég þarf ekki að segja það oftar.

Ég vil einnig, hæstv. forseti, benda á að IV. kaflinn, samningur um heilbrigðisþjónustu, byggir eins og margoft hefur komið fram á lögum frá því 17. mars 2007 sem þingheimur samþykkti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn Vinstri grænna, margir hverjir, þekki þann lagabálk um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðislögin. Þeir finna að því er virðist, og ég leyfi mér að segja það aftur, hæstv. forseti, þessu frumvarpi allt til foráttu þó að það sé byggt að stórum hluta á lögum sem þegar hafa verið samþykkt í þinginu.

Ég get hins vegar tekið undir það að þegar verið er að setja lög um þingsköp og reglur um að málum eigi að skila inn fyrir 1. apríl, þá ætti þingheimur og jafnframt framkvæmdarvaldið og ráðherrar að halda sig innan þeirra tímamarka en þá á líka þingheimur allur að vera sjálfum sér samkvæmur hvað það varðar en segja ekki stundum já og stundum nei. Það er geðþóttaákvörðun. Annaðhvort segir maður já alltaf eða segir nei alltaf en ekki stundum, hæstv. forseti.