135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að heyra álit hv. þingmanns á samræmdri, rafrænni sjúkraskrá og að heilsugæslan eigi í reynd að verða fyrsti viðkomustaður. Það verði þá gert bæði með uppbyggingu og framlögum úr ríkissjóði. Ég fagna því ef hægt verður að skoða það.

Hvað varðar núverandi kerfi, opinber framlög og fjárlög þá vil ég mótmæla því að þeir starfsmenn sem vinna við opinbera heilbrigðisþjónustu séu ekki að hugsa um þjónustuna. Aftur á móti hefur það orðið þannig að hlutirnir hafa meira og minna snúist um að spara, að láta allt vera innan fjárlagarammans og er ekki við það fólk að sakast. Við skulum horfa á fjárlög ríkisins og hvernig þau eru unnin. Ég nefni hér sem dæmi heilbrigðisstofnun Austurlands sem skilin var eftir með 70 millj. kr. halla nú um síðustu áramót. Hvernig á hún að halda óbreyttum rekstri þegar hún fer inn í nýtt fjárlagaár með skuld á bakinu?

Staða þessarar stofnunar getur ekki snúist um annað en að reyna að halda sjó. Þá er ekki hægt að koma með einhver nýmæli, framþróun, bæta þjónustuna eða auka hana eins og krafan er um. Það hefur ekki fylgt eftir íbúaþróun eða neinu slíku. Það er engin uppbygging á húsnæði eða viðgerðir á húsnæði. Ég tel ekki hægt að kenna opinberum rekstri um, að hann sé ekki góður, heldur er fjárlagagerðin algjörlega óviðunandi (Forseti hringir.) eins og hún er í dag.