135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er kannski athyglisverðast við þetta mál, að minnsta kosti hvernig það ber að hvað þann þátt varðar, að það skuli koma á dagskrá og til umræðu 14. maí og hafa verið tekið á dagskrá þingsins með afbrigðum í morgun. Þetta mál er skilgetið afkvæmi af þeim breytingum á Stjórnarráðinu og breyttri verkaskiptingu þar sem hæstv. ríkisstjórn boðaði með miklum lúðrablæstri fyrir um rétt tæplega ári.

Það er athyglisvert verklag, þó ekki sé meira sagt, að málið skuli koma hér þegar fimm, sex virkir dagar eru eftir af starfstíma Alþingis á þessu vori. Alveg sérstaklega ef það er virkilega svo að hæstv. ríkisstjórn telji það eðlileg vinnubrögð og eðlilegan framgangsmáta að málið fái afgreiðslu fyrir 29. maí næstkomandi, að gefast eigi réttar tvær vikur þá til að fjalla um þetta stóra og viðamikla mál.

Við vorum mörg á því að stjórnarráðsbreytingar og Þingvallasamkomulag formanna stjórnarflokkanna um að hrókera til verkefnum í Stjórnarráðinu væri ekki bara vanbúið og vanreifað heldur í raun langt frá því að vera þannig undirbúið og hugsað að það væri tækt til afgreiðslu á þingi, því skamma vorþingi sem var í júnímánuði síðastliðnum, eða um mánaðamótin maí/júní fyrir tæpu ári.

Ég held að það sé að koma á daginn, og þessi málafylgja hæstv. heilbrigðisráðherra sannar það, að það er meira en að segja það að ætla sér að stokka upp verkaskiptingu af þessu tagi og ekki er sá svipur á hlutunum sem ég held að menn geti verið stoltir af að bera þetta fram örfáum dögum fyrir þinglok, þurfa að koma því á dagskrána með afbrigðum einum og hálfum mánuði eftir að frestur til að leggja fram þingmál og fá þau tekin fyrir með eðlilegum hætti og án afbrigða er útrunninn.

Það var líka nokkuð athyglisvert að aðstandendum málsins, sem ég leyfi mér að ímynda mér að séu t.d. hv. þm. Ásta Möller, lá svo mikið á að farið var út í þær óvenjulegu aðgerðir að senda málið út til umsagnar í nafni formanns heilbrigðisnefndar áður en málið komst á dagskrá hvað þá meira. Hvað þá að 1. umr. hefði farið fram og málið væri komið til heilbrigðisnefndar á forræði hennar.

Ekki óþekkt, kallar hér fram í hv. þingmaður Ásta Möller. Og þar mun vera átt við eitt, mögulega tvö fordæmi eftir því sem ég best veit sem voru gagnrýnd mjög á sínum tíma og þóttu ekki til eftirbreytni. Það var flokksbróðir hv. þingmanns, Vilhjálmur Egilsson, þáverandi formaður í efnahags- og viðskiptanefnd, sem mun vera aðallega borinn fyrir og notaður hér sem fordæmi sem að sjálfsögðu skapar engan rétt, enga hefð sem byggjandi er á þó að einhver þingmaður einhvern tímann áður hafi gert sömu vitleysuna.

Ég fullyrði, enda var ég á vettvangi á þeim tíma og í þeirri nefnd, að um það var engin samstaða og hv. þingmaður og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eða hvað það nú er, var einmitt mjög gagnrýndur fyrir þessa málafylgju sína. Það var aldrei litið svo á að þar með hefði málið farið af stað í formlegt umsagnarferli.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem þar fór fram. Ég hef áður komið afstöðu minni á framfæri hvað það varðar í athugasemdum um fundarstjórn, að það er algerlega fráleitt að ætla að fara að ýta til hliðar skýrum ákvæðum þingskapalaga að þessu leyti. Það er ekki til þess fallið að auka traust og tiltrú og virðingu á öguðum og skipulögðum vinnubrögðum á Alþingi. Það er léleg stjórnarandstaða sem ekki reynir að standa eitthvað í ístaðinu þegar kemur þó að lögvörðum réttindum um vandaða málsmeðferð og reynslan sýnir að passa þarf upp á stjórnarandstöðuna. Því aðstandendur mála, ráðherrar og liðsmenn þeirra freistast alltaf til þess og réttlæta það með tímaþröng og öðru slíku að reyna að sveigja slíkar reglur sér hag, þ.e. stytta málsmeðferðina og einfalda hana, eins og það mundi sýna ef Alþingi léti bjóða sér það að afgreiða þetta mál sem hér er til umræðu á örfáum dögum. Þetta er nú einu sinni frumvarp til heildarlaga um sjúkratryggingar í landinu og ekkert lítið undir í þeim efnum, tengt við kerfisbreytingu þar sem margt er enn óljóst hvernig til tekst, t.d. sundurdrátturinn á verkefnum þess sem áður var og er Tryggingastofnun ríkisins í tvær stofnanir o.s.frv.

Gaman hefur verið að fylgjast með málflutningi aðstandenda málsins, stjórnarliða, sem hafa ýmist eins og hv. síðasti ræðumaður reynt að sannfæra menn um og róa hvað það varðar að engar breytingar séu í frumvarpinu. Í hinu orðinu hafa aðrir ræðumenn hins vegar talað mikið um þessa mikilvægu og nauðsynlegu kerfisbreytingu sem sé að fara fram. Hvort á nú að gilda? Ætli það sé ekki einhver blanda af hvoru tveggja. Ætli það sé ekki hyggilegt að taka þetta mál og skoða það, ekki bara einangrað sem einhverja eyju í heilbrigðiskerfinu óháð tíma og rúmi, óháð aðstæðum og óháð stjórnarstefnu heldur sem hluta af þessu öllu saman. Þar um er greinargerð frumvarpsins besta heimild.

Það má í sjálfu sér hrósa því, að ég held, að greinargerðin er nokkuð heiðarleg vegna þess að þar er farið rækilega yfir það hvernig frumvarpið tengist breyttum áherslum og nýrri stefnu í heilbrigðismálum á Íslandi, stefnu Sjálfstæðisflokksins sem ræður nú ríkjum. Enginn þarf að fara í grafgötur um að þar er verið að ryðja braut og leggja grunninn að umtalsverðri kerfisbreytingu í heilbrigðismálum á Íslandi sem gengur í átt til þess að kostnaðarmeta og kostnaðarreikna alla hluti eins og um viðskipti með varning eða eitthvað annað væri að ræða og auka mjög þátttöku einkaaðila í rekstrinum. Þetta er í grófum og einfölduðum dráttum það sem hér er á ferðinni.

Enda segir, með leyfi forseta, í inngangi að athugasemdum við frumvarpið:

„... í samræmi við samþykkt núverandi ríkisstjórnar um breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta og breyttar áherslur í kostnaðargreiningu heilbrigðisþjónustu og fjármögnun hennar.“

Síðar segir:

„Frumvarpið byggist á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en þar segir m.a.: „Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum,“ — en bætt svo við, væntanlega til að róa kjósendur Samfylkingarinnar — „en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag.““

Síðan er fjallað um hvernig staðið skuli að samningum um heilbrigðisþjónustu og endurgjald ríkisins til heilbrigðisþjónustu og talað um kaupendur heilbrigðisþjónustu og þar fram eftir götunum. Í raun þarf ekki frekar vitnanna við. Þetta frumvarp er auðvitað hluti af þeirri kerfis- og stefnubreytingu sem verið er að byrja að ryðja hér braut og sér stað með ýmsum hætti og á að skoðast sem slíkt.

Ef við völd væri önnur ríkisstjórn með aðrar áherslur í þessum efnum sem hefði stillt kompásinn öðruvísi mundu menn sjálfsagt skoða frumvarpið í þó nokkuð öðru ljósi. Það er vissulega rétt að að stærstum hluta til eru hér kunnugleg ákvæði núgildandi laga um sjúkratryggingar á ferð. En það er bara ekki þannig sem þetta virkar, að það inntak frumvarps eða laga sé óháð þeim sem síðan ætla að framkvæma hlutina, sé óháð þeirri stefnu sem siglt er eftir. Það er ekki þannig.

Auðvitað er þetta hluti af einkavæðingarleiðangri Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. Það er algjörlega morgunljóst. Þetta er hluti af því að fara að meðhöndla þessa samfélagsþjónustu eins og hver önnur viðskipti þar sem allt sé hægt að verðleggja og borga helst eftir afköstum. Menn vinni í akkorði eins og að snyrta flök í fiskvinnslu. Það er hugsunin. Því miður er það svo að slík hugsun er stórvarasöm og gengur alls ekki upp nema með miklum ófarnaði ef menn fara með hana of langt inn í kjarna velferðarþjónustunnar.

Þetta getur litið ágætlega út á pappírunum og slegnir eru varnaglar. Talsmenn Samfylkingarinnar spretta hér upp og benda á það. „Já, en það eiga allir að hafa jafnan aðgang án tillits til efnahags“ o.s.frv. Þannig getur þetta vel litið út og jafnvel verið í byrjun. En menn eru ekki sjóaðir í þessum efnum og þekkja ekki mikið til pólitískrar sagnfræði ef þeir velta því ekki fyrir sér. Já, en hvað svo? Hvernig þróast svo hlutirnir þegar grunnurinn hefur verið lagður með þessum hætti? Þetta galopnar að sjálfsögðu allar gáttir fyrir því að koma svo í kjölfarið með kröfur um aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna þess að allt er verðlagt, metið og reiknað, hvert viðvik og hver einstaklingur. Þannig hefur einkavæðingin alltaf verið sett inn í kerfið, að byrjað er á að kostnaðargreina hana.

Hvað gerðu menn í skólamálum þegar þeir voru að undirbúa það að hægt væri að einkavæða skólahúsnæði? Menn fóru að kostnaðargreina það. Menn fóru að láta opinbera skóla borga sjálfum sér leigu. Ríkið borgar sjálfu sér leigu bókhaldslega séð til að geta svo sagt í næstu umferð: Já, en það er nú hvort sem er verið að borga leigu. Við getum alveg eins borgað hana einkaaðila eins og ríkinu. Ríkið getur alveg eins leigt af öðrum en sjálfu sér. Brautin rudd. Og við skulum ekki tala tæpitungu um þetta eða öðruvísi en þetta er. Þetta er gamalkunnug aðferð. Og þá skiptir hugmyndafræðin sem á bak við er og ásetningur þess sem ætlar að framkvæma hlutina miklu máli. Hann er sá sem við þekkjum. Þetta er hluti af kerfisbreytingu í anda og í þágu ákveðinnar hugmyndafræði sem fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir í þessum efnum en á sér reyndar mjög dygga stuðningsmenn, marga hverja í röðum samfylkingarþingmanna, því miður. Þar hefur farið kannski fremstur í flokki varaformaður flokksins, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, en á sér þó sennilega líka stuðningsmann í hv. þm. Árna Páli Árnasyni heyrist mér.

Þetta hefur á sér sem sagt sakleysislegt yfirbragð. En þá er rétt að skyggnast á bak við tjöldin og skoða það sem á bak við liggur. Hvar ætla menn að draga mörkin? Hvað á að verðleggja og hvað ekki? Allt að lokum? Hvern einasta hlut? Verður kerfið manneskjulegra við það? Verður það betra? Er skynsamlegt að brjóta hlutina þannig upp, t.d. í rekstri eininga út um land, þar sem við þurfum sárlega á því að halda að reyna að safna saman þó þeirri þjónustu og þó þeim kröftum sem hægt er að viðhafa til að veita sem besta og almennasta þjónustu, t.d. á heilbrigðisstofnunum í héruðum landsins almennt? Er slík hugsun gáfuleg þar? Nei. Greiðir þessi hugsun götu þess að auðveldara sé að manna starfsemina og veita þjónustuna? Er það ódýrara ef þetta fer allt út í einhvers konar verktakabransa? Halda menn það? Ég held ekki.

Hvað er notað sem rök? Það sem notað er sem rök eru m.a. annars þær þrengingar sem margar heilbrigðisstofnanir eru í og sagt að það kerfi sé ómögulegt. Er það kerfið sem er að sliga Landspítalann? Það að hann fær of litla peninga? Hann er í fjárhagslegri spennitreyju. Hann er sveltur. Halda menn að það sé aðferðin við að koma fjármununum til Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem er að keyra hana í þrot þessa dagana? Nei. Það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er veitt fjármagn til að hægt sé að halda þjónustunni uppi svo að hægt sé að bjóða sæmileg kjör, þannig að hægt sé að manna starfsemina.

Sveltistefnan gagnvart hinum opinbera hluta þessa rekstrar undanfarin ár er hluti af hugmyndafræðinni, af kerfinu. Ryðja brautina fyrir einkavæðinguna. (Gripið fram í: Enda auka...) Og leiðarahöfundur og tilvonandi ritstjóri Moggans, Ólafur Stephensen, afhjúpaði þetta mjög vel í leiðara í 24 stundum þar sem hann nánast hlakkaði yfir erfiðleikum Landspítalans og gladdist yfir því að þetta mundi ryðja einkavæðingunni brautina. Þannig er hugarfarið.

Auðvitað geta menn farið með þessa hugsun alveg á enda og sagt: Við ætlum að borga allt eftir afköstum og einingum. Eigum við að taka lögregluna sem dæmi? Hvernig væri nú að kostnaðargreina starfsemi hennar og fara að borga lögreglunni eftir því hvað hún væri dugleg við að taka menn fasta? Það er vissulega hægt. Það er fræðilega mögulegt. En er eitthvert vit í? Nei. Vegna þess að það er starfsemi, það er verkefni í samfélagi okkar sem einmitt má ekki fara með inn á markaðstorgið. Það er stórhættulegt. Það gildir líka um mikilvæga og viðkvæmustu hluta kjarnans í heilbrigðisþjónustunni. Þar á þetta ekki heima.

Þess vegna þýðir ekkert að ræða þetta einangrað og óháð stefnunni eins og hún er, (Forseti hringir.) hugmyndafræðinni sem að baki liggur, menn eiga að vera menn til að kannast við hana.