135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:30]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil glaður kannast við að í þessu frumvarpi er leitast við að koma í framkvæmd kosningastefnu Samfylkingarinnar í síðustu kosningum þar sem við lofuðum m.a. kostnaðargreiningu á heilbrigðisþjónustunni og að fjármagn mundi fylgja sjúklingum.

Hv. þingmaður rakti hér m.a. að frumvarpið væri varhugavert vegna þess hver sæti í heilbrigðisráðuneytinu. Ég vil benda hv. þingmanni á að valdheimildir ráðherra til samninga eru ekki nýjar í þessu frumvarpi. Þær eru þegar fyrir hendi. Eini munurinn er sá að þær eru óheftar í núverandi lögum en í því frumvarpi sem hér er til umræðu eru sett viðmið. Það er gerð krafa um að heilbrigðisþjónustan sé veitt óháð efnahag. Það er í fyrsta skipti sett í lög að bannað sé að greiða sig fram fyrir í biðröð. Ef hv. þingmaður sefur ekki rólegur á nóttunni yfir því að hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hafi þau völd sem hann hefur þá held ég að ég verði að hvetja hv. þingmann til að hjálpa okkur við að hraða þessu frumvarpi gegnum þingið. Hér er í fyrsta skipti búinn til rammi, faglegur rammi, utan um ákvörðun ráðherra að þessu leyti og komið í veg fyrir að mögulegt sé að beita því með tilviljanakenndum hætti.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði af mikilli fyrirlitningu um kostnaðargreiningu. Ef við erum með tvö sjúkrahús sem bæði kosta 500 millj. á ári og annað þjónustar 300 sjúklinga og hitt 500 og bæði vantar peninga, á þá að láta bæði fá pening ef við vitum ekki hvernig kostnaðurinn er til kominn? Ef við vitum ekki hvaða þjónusta hefur verið veitt, er ekki fullkomlega eðlileg forsenda og lágmarksforsenda að við byrjum á því að kanna hvaða þjónusta er veitt og þjónustan sjálf (Forseti hringir.) sé forsenda greiðslna?