135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þær eru margar skýrslurnar og flestar eru þær unnar á grundvelli sömu hugmyndafræði sem hefur verið ráðandi í þessum efnum og knúin hefur verið fram meira og minna á öllum Vesturlöndum á undanförnum áratugum samkvæmt forskrift frá Efnahags- og framfarastofnuninni, Alþjóðabankanum og fleiri aðilum. Það er hugmyndafræði, nýfrjálshyggju og markaðsvæðingar og við þekkjum hana mjög vel. Jafnvel þótt tekin séu dæmi frá Norðurlöndunum þá breytir það litlu um að sú hugmyndafræði hefur líka síast þar mikið inn. Það eru um það mjög harðar deilur hversu farsæl og gæfuleg þróunin hefur verið þessum efnum, líka í þeim löndum þar sem menn hafa fylgt þessum módelum, í Bretlandi, Svíþjóð, Nýja-Sjálandi og víðar. Um það er mikill pólitískur ágreiningur. Skýrsla sú sem hv. þingmaður vitnaði til, Jónínu-skýrslan svokallaða, var mjög umdeild og ég veit ekki betur en að þáverandi heilbrigðisráðherra og flokkssystir skýrsluhöfundar hafi meira og minna afneitað henni. Það er því ekki eins og það sé heilagur sannleikur þó að það hafi komið út á skýrslu og jafnvel ekki þó fyrrv. hv. þm. Jónína Bjartmarz hafi verið formaður nefndarinnar, að það sé hinn eini og endanlegi sannleikur og um hann þurfi ekki að deila.

Mat á kostnaði og fyrirkomulag greiðslna eru að sjálfsögðu mikilvægir þættir þegar við skoðum þessa hluti en það á ekki að slíta úr samhengi við eðli viðfangsefnisins. Þetta er ekki akkorð eins og að snyrta dauð fiskflök á færibandi þegar kemur að viðkvæmri samfélagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu, gleymum því aldrei. Varnaðarorð okkar snúa annars vegar að þessu sérstaklega, að eðli starfseminnar, og hins vegar að því að kerfisbreytingin sem sett er í samhengi við þá hugmyndfræði sem nú ræður ríkjum í heilbrigðisráðuneytinu og hjá ríkisstjórn er göróttur kokteill. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig þetta getur litið út eftir fimm eða tíu ár ef menn keyra þetta áfram á sömu braut. En það má greinilega ekki ræða mikið þann þátt málsins við hv. stjórnarliða því að verið er að reyna að læða málinu í gegn á örfáum sólarhringum eins og það sé svo sem ekki neitt neitt.