135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:43]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður geti ekki kvartað undan því að hv. þingmenn stjórnarliða taki ekki þátt í umræðum í dag. Ef eitthvað er hafa þeir verið virkari í umræðunni en stjórnarandstaðan eða það má að minnsta kosti ekki á milli sjá. Það er ekki hægt að saka okkur um að hafa ekki viljað taka þátt í umræðunni og höfum við ekki verið að hlífa okkur við því að svara stjórnarandstæðingum.

Það vakti athygli mína hvað hv. þingmaður var umsnúinn og viðskotaillur þegar verið var að tala um kostnaðargreiningu, að allt eigi að vera verðlagt, metið og reiknað. Hvað er að því að meta verð og reikna í kringum heilbrigðisþjónustu? Það er gert í dag, m.a. varðandi kostnað við röntgenrannsóknir, varðandi keisaraskurði og slíkt. Það er meira að segja hægt að nota þetta sem stjórnunartæki til að gera enn betur. Ég get tekið dæmi um kostnað við keisaraskurð á Íslandi, að hann væri meiri hér en erlendis. Farið var að skoða hverju þetta sætti. Í framhaldinu voru gerðar ákveðnar ráðstafanir sem bæði bættu þjónustuna og gerðu hana ódýrari. Það er ekkert athugavert við að verðmeta þjónustu með þessum hætti og í því felst engin ástæða til að halda að umhyggja, hjúkrun, lækning eða endurhæfing fari út úr kerfinu, öðru nær. Við fáum meira út úr kerfinu með þessu. Ég átta mig reyndar ekki á þessari hræðslu hv. þingmanns við nýjar aðferðir til að bæta stjórnunaraðferðir innan kerfisins. Ég fullyrði, og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég, að stjórnendur heilbrigðisstofnana kalla eftir þessari kostnaðargreiningu og eftir því að gera þjónustusamninga.