135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég var að gera margt í senn á þessum litla tíma, minna á sögulegar rætur jafnaðarstefnunnar og hvernig þeir sem tóku þátt í að skapa velferðarkerfi á Íslandi byggðu á allt annarri hugsun og hugmyndafræði en þeirri sem Samfylkingin fylgir nú í samkrulli með Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Það er staðreynd.

Síðan er það náttúrlega viðurkennt og sagt að það sé rétt að hægt sé að misnota öll kerfi. Það er alveg rétt. Það er hægt að misnota öll kerfi. En hvernig ætla menn að ráða bót á því? Hvernig skyldu menn fara að því? Það gera þeir með eftirliti, með gagnsæjum samningum, er talað um, og síðan eftirlitsstofnunum. Hvernig gengur nú að beita því eftirliti? Hvernig gengur það til dæmis á Sóltúni? Er eðlilegt að endurskoðendur og bókhaldsmeistarar fari ofan í sjúkraskrárnar? Verður það þannig? Ég held ekki. Getur verið að við lendum í því sama og Nýsjálendingar hafa lent í þar sem heilbrigðisstofnanir neita hinu opinbera um aðgang að sínum innri gögnum öllum vegna þess að þetta eru fyrirtæki á markaði? Við erum að halda með heilbrigðiskerfið okkar inn á þennan vettvang. Við því er ég að vara.

Auðvitað sé ég margt gott í þeirri lagasmíð sem hér hefur orðið til á undanförnum árum. En ég sé mörg hættumerki líka. Við erum að hvetja til þess að áður en við umbyltum kerfinu, reisum annan grunn undir kerfið, að þá eigum við að taka miklu betri og vandaðri umræðu. Við erum að hvetja til þess að tekið verði á því þverpólitískt og farið í saumana á reynslu annarra þjóða, Norðurlandanna, Breta, Ný-Sjálendinga, (Forseti hringir.) annarra þjóða áður en við tökum áhættu á því að eyðileggja kerfið, íslenska heilbrigðiskerfið sem er þegar allt (Forseti hringir.) kemur til alls mjög gott.