135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér nú að gagnrýna áherslur Samfylkingarinnar sem ég tel vera komna inn á svipaðar brautir og hægri kratar hafa farið inn á, t.d. í Bretlandi undir forustu Tonys Blairs. Þær áherslur sem við höfum heyrt frá hinum ágæta hv. þm. Árna Páli Árnasyni og síðan einnig varaformanni Samfylkingarinnar (ÁPÁ: Hvað með vinstri græna í Svíþjóð?) eru á þessari línu. Já, hvað með áherslur sænskra sósíaldemókrata og þá vaxandi gagnrýni sem kemur nú fram í þeirra röðum á stefnu íhaldsmanna?

Þegar menn alhæfa um sænska heilbrigðiskerfið vilja þeir gleyma því að það er skipulagt á lénsvísu og mismunandi áherslur uppi. Það er mikil og lífleg umræða núna í Svíþjóð um stefnumótun í sænska heilbrigðiskerfinu. Ég vísa þar í erindi sem Göran Dahlgren flutti hér fyrir fáeinum missirum um þróun innan sænska heilbrigðiskerfisins.

Nei, þær áherslur sem hv. þingmaður hefur eru ansi fjarri því sem ég sé hjá gömlum jafnaðarmönnum og sósíalistum sem reistu íslenska velferðarkerfið hér á fjórða áratugnum og síðan á þeim áratugum sem fóru í hönd.(Gripið fram í.)

Við greiddum atkvæði gegn þeirri lagagrein í heilbrigðislögunum í mars síðastliðnum sem kveður á um heimildir til ráðherra að bjóða út rekstur heilbrigðisþjónustunnar og kaup á heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum. Þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur hún, með ásetningi Sjálfstæðisflokksins og stuðningi Samfylkingarinnar um að markaðsvæða kerfið, farið í ríkari mæli en verið hefur út á markaðstorgið. Þá horfa menn á alla þessa lagasmíð í nýju ljósi. (Forseti hringir.) Menn horfa til þeirra markmiða sem ríkisstjórnin setur sér, að sjálfsögðu gerum við það.