135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er eðlilegt, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni hér í dag, að hér verði nokkurs konar eldhúsdagur um stefnuna í heilbrigðismálum. Það þýðir voðalega lítið fyrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna, og þá sérstaklega talsmann Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum hv. þm. Árna Pál Árnason, að kveinka sér undan því. Í 2. gr. þess frumvarps sem hér liggur fyrir segir m.a., með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra markar stefnu innan ramma laga þessara, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga.“

Það kemur fram að ráðherra er heimilt enn fremur að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, m.a. hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.

Því er eðlilegt að rætt sé hér um þá stefnu sem ráðherrann hefur, eins og hann lýsir henni, og eins og hún birtist í þeim verkum sem við þekkjum nú þegar.

Það er líka nauðsynlegt að benda á að það er auðvitað í valdi ráðherra og ráðuneytisins að setja margar reglugerðir, ég veit ekki hversu margar. Ég hef ekki komist yfir að lesa eða telja hversu margar reglugerðir ráðherrann á að setja hér með þessum lagagreinum. En það er alveg ljóst að eins og þetta mál er lagt upp og eins og bent hefur verið á í dag þá skiptir höfuðmáli hver heldur á stefnunni, hver heldur utan um málaflokkinn. Stefna hans, flokks hans og þeirrar ríkisstjórnar sem um ræðir mótar auðvitað framkvæmdina fyrst og fremst. Það er beinlínis áskilið í lögum og í frumvarpinu að svo skuli vera. Í greinargerðinni er meira að segja lögð áhersla á að það þurfi skýra pólitíska leiðsögn og forustumenn, skýra sýn o.s.frv.

Ég vil í þessum stutta seinni ræðutíma mínum benda á að í greinargerð með frumvarpinu er fjallað á blaðsíðu 25 í sérstökum kafla um þessa svokölluðu styrkingu á hlutverki ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu sem hv. þm. Árni Páll Árnason hefur lagt mikla áherslu á að skipti höfuðmáli. Þar er talið upp í einum sex liðum ef ekki fleirum hvaða ávinningur er í þessu.

Þar er sameining þessara verkþátta kaupenda heilbrigðisþjónustunnar sem eru á þremur stöðum í kerfinu núna. Sagt er í greinargerðinni að þetta muni stórbæta samningsstöðu ríkisins og muni styrkja til muna stefnumótunar- og skipulagshlutverk ráðuneytisins. Jafnframt er sagt að það skapist möguleikar á að bæta eftirlit með því hvað ríkið fær fyrir peningana og að það auki yfirsýn og sveigjanleika. Það gerir mögulegt að stýra áherslum innan kerfisins m.a. í þeim tilgangi að stytta biðlista og biðtíma. Síðan kemur hér í sjöunda lagi þessi setning, herra forseti:

„Auk þess má með samningum og blönduðum greiðslukerfum kalla fram fjölbreytilegri rekstrarform sem geta fjölgað valkostum hjá bæði starfsfólki og notendum.“

Þetta ásamt því sem vísað er í stefnu ríkisstjórnarinnar um fjölbreytilegri rekstrarform í heilbrigðisþjónustu með útboðum og þjónustusamningum hefur auðvitað orðið grunntónninn í umræðum okkar vinstri grænna hér í dag. Það er full ástæða til þess að óttast um framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu í höndum Sjálfstæðisflokksins og ég held að þjóðin viti það. Mönnum er ekkert rótt, allra síst þegar gengið er fram með þeim hætti sem birst hefur hér í dag, með offorsi — ég vil kalla það valdníðslu — þar sem tekið er fram fyrir hendurnar á þinginu sem slíku og þeirri nefnd sem lögum samkvæmt á að fara með þessi mál.

Það er mikilvægt að heilbrigðisþjónustan verði ekki sett undir skilmála markaðskerfisins þar sem hagnaðar- og viðskiptasjónarmið eru grundvöllurinn. Við vinstri græn (Forseti hringir.) munum berjast gegn því með öllum ráðum sem við mögulega getum gripið til.