135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég er að vitna í skoðanakönnun. Ég er að vitna í könnun á viðhorfi þjóðarinnar sem er bara alls ekki sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það er bara þannig.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Þar kemur fram að 81,5% af þjóðinni vilja að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, leggi aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar. Það er nú bara þannig.

Og ég er glöð yfir því að það skuli vera hluti af kjósendum Sjálfstæðisflokksins sem skynjar hætturnar á þeirri vegferð sem flokkurinn er í og vill leggja meira fé til þessa málaflokks. Það eru 80,7% sem vilja að sjúkrahúsin séu fyrst og fremst rekin af hinu opinbera.

Ég leyfi mér að fullyrða þó að ég hafi aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn að þá hljóti í þeim hópi að vera einhverjir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmaður.

Þessi ríkisstjórn hefur farið þvert á vilja þjóðarinnar í stefnumörkun sinni. Það er verið að reka ákveðinn endahnút á það ferli hér með þessari innkaupastofnun sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér auðvitað að nota til þess að breyta um rekstrarform eins og það heitir á fallegu máli í heilbrigðisþjónustunni. Hann ætlar að grípa til einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni, einkum í formi einkaframkvæmdar.

Það er margt sem bendir til þess í hvað stefnir, landsfundur Sjálfstæðisflokksins, samþykktin um einkavæðinguna, stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar og síðan er ákall m.a. frá forustumönnum lækna og Samtökum atvinnulífsins um meiri einkavæðingu, sérstaklega einkaframkvæmd og einkarekstur. Það er þetta sem þjóðin skynjar auðvitað.

Þess vegna, herra forseti, get ég alveg (Forseti hringir.) vitnað um hvað skoðanakannanir segja um hug sjálfstæðismanna í þeim efnum þó að ég sé ekki í Sjálfstæðisflokknum.