135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:13]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur hér verið að vitna í grein, Íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum, eftir Rúnar Vilhjálmsson. Og (Gripið fram í: ... könnun) Það er hér grein (Gripið fram í: Um könnun ...) sem heitir Íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum eftir Rúnar Vilhjálmsson.

Hæstv. forseti. Er það ég sem hef orðið eða hv. þm. Álfheiður Ingadóttir?

Í inngangi greinarinnar stendur og er spurt hvort manni finnist að eftirfarandi starfsemi eigi að vera starfrækt af hinu opinbera eða rekin af hinu opinbera. Við erum að tala um að heilbrigðisþjónustan í landinu eigi að vera rekin af hinu opinbera af skattfé og fjármögnuð af skattfé, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Það er ekkert flóknara en það. Það er verið að tala um að hið opinbera greiði heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er verið að tala um að heilbrigðisþjónustan verði aðgengileg öllum óháð efnahag.

Þessi þráhyggja vinstri grænna er með ólíkindum. Og ef þeir vilja berja hausnum við steininn frá upphafi til enda um að þetta frumvarp sé færsla í þá veru að fara að auka kostnað sjúklinga, það þurfi að gera þetta og hitt eins og þeir nefna, þá legg ég til að þeir lesi frumvarpið. Það kom greinilega fram í fyrri ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, hæstv. forseti, að hún hafði ekki lesið frumvarpið. Hún vissi ekki hvað stóð í því en hún hafði um nóg annað í heilbrigðiskerfinu að tala en það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Það er algjörlega kýrskýrt hvað stendur í þessu frumvarpi. Heilbrigðiskerfið verður áfram fjármagnað af hinu opinbera. Ríkið verður kaupandinn. Seljendur sem veita þjónustuna gera með sér samning og þar kemur sjúkratryggingastofnun inn.

Þótt hægt sé að vitna í skoðanakannanir, þá er ekki hægt að tala um að þjóðin óttist heilbrigðiskerfið og heilbrigðismálin undir stjórn Sjálfstæðisflokksins en hún gæti gert það, hæstv. forseti, ef breytingar yrðu á stjórn í (Forseti hringir.) heilbrigðisráðuneytinu.