135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:15]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Það er alveg makalaust, herra forseti, hvað menn grípa til þess að tala niður til pólitískra andstæðinga úr þessum stól. (Gripið fram í.) Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því að ég hafi ekki lesið frumvarpið? Ég tók það alveg skýrt fram í dag að þetta frumvarp væri mér tilefni til umræðu um pólitíska stefnumörkun í heilbrigðisþjónustunni (Gripið fram í: Það er rangt …) og þannig mundi ég … Hvað segir þingmaðurinn? (Gripið fram í: Það er rangt. Það var málflutningur hv. þingmanns þar sem vitnaði og vissi ekki hvað stóð í greinunum sem ...) Þetta er einfaldlega rangt, herra forseti, það er einfaldlega rangt. Ég er búin að lesa þetta frumvarp, að vísu ekki nema einu sinni í gegn, það verður að viðurkennast, og las greinargerðina í flugvél í gærkvöldi. Ég er því búin að lesa þetta frumvarp og veit alveg hvað í því stendur. Ég vitnaði í seinni ræðu minni, og gerði það reyndar í andsvörum í dag, í greinargerð frumvarpsins og einstakar greinar og hv. þingmaður ætti að geta markað það af því að ég hef lesið frumvarpið. Ég varði hins vegar tíma mínum hér í það að benda á þann vanda sem einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustunni fylgir, m.a. ósveigjanleika samninga, m.a. partalækningar og ósamfellu í þjónustunni og m.a., herra forseti, hækkun á gjöldum ýmist ríkisins, þ.e. kostnaðurinn við þjónustuna verður meiri, eða sjúklinga beint, hækkun sjúklingaskatta. Ég leyfði mér að benda …(Gripið fram í.) Ég var að tala um einkaframkvæmdina almennt sem er alfa og omega í greinargerð þessa frumvarps. Þetta snýst í rauninni um pólitíska stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins um önnur rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni en nú eru. Það þýðir ekkert að kveinka sér undan því og fara allt í einu að tala um jöfnuð í heilbrigðismálum (Forseti hringir.) eins og menn grípa hér til í nauðvörn sinni.