135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:32]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða stuttum tíma mínum hér í andsvari til þess að kenna hæstv. heilbrigðisráðherra sögu en ég skora á hann að kynna sér hvernig nafnið á Þjóðviljanum var til komið og hvaðan. Það gæti verið upplýsandi fyrir hæstv. ráðherra.

Ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag hver ég taldi að væru brýnustu verkefnin í heilbrigðismálum. Þess vegna var algjörlega óþarfi af hæstv. ráðherra að spyrja hvað mér eða öðrum fyndist um hitt eða þetta. Það er alveg klárt hvað ég nefndi sem brýnustu verkefni. Ég lagði meira að segja fram ítarlegar spurningar til ráðherrans, meðal annars um tvær nefndir sem eru nú að störfum á hans vegum, um verklok þeirra og hvort ætlunin væri að skila því inn í heilbrigðisnefnd þingsins.

Ég nefndi laun og aðbúnað starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni. Ég nefndi vandann á Landspítalanum og hugmyndir um að hlutafélagavæða hann og ég spurði um Vilhjálmsnefndina, yfirráðherrann þar. Ég spurði um nefnd sem er að vinna við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ég spurði um aldraða. Ég hef ekki fengið svör við þessu enn þá.

Það er alrangt að ég hafi fullyrt að þetta frumvarp hækki þjónustugjöld. Það sem ég hef sagt er að stefna ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og það sem greinargerðin hér ber með sér, að tilgangurinn með þessu frumvarpi sé stefna sem felur í sér stórkostlega hættu á því að sjúklingaskattar muni hækka, að hagkvæmni í heilbrigðisþjónustunni muni minnka og að aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu verði misskipt á milli þjóðarinnar. Það er ekkert öðruvísi.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram mörg fræðileg og ítarleg rök fyrir þessari fullyrðingu og þau hafa ekki verið hrakin.(Forseti hringir.)