135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:43]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðna stefnu í heilbrigðismálum sem var samþykkt á síðasta landsfundi og hefur verið samþykkt sambærileg á landsfundi á undan. Ég ætla bara að lesa þetta fyrir þingheim, með leyfi virðulegs forseta:

„Landsfundur leggur áherslu á rétt allra landsmanna til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Landsfundurinn vill nýta kosti fjölbreyttra rekstrarforma á sem flestum sviðum og tryggja þannig hagkvæma nýtingu opinbers fjármagns.

Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda almannatryggingum og að heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum“

Þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins. Þegar maður gengur á hv. þingmann — og ég, virðulegi forseti, er ánægður með að hv. þingmaður er aðeins að draga í land með þessi gífuryrði og er nú kominn á þá skoðun að þetta sé samt bara eitthvert samsæri, að menn ætli að byrja smátt, og að smátt og smátt eigi þetta að verða eitthvað, sem ég að vísu veit ekki alveg hvað er og ég veit ekki hverjir hagsmunir Sjálfstæðisflokksins séu að koma einhverju slíku kerfi sem hann er að teikna upp. Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef ekki hugmynd um af hverju það ætti að vera. Ég er alveg sannfærður um að allir landsmenn séu sammála þegar kemur að því (Gripið fram í.) eða langflestir ... Ég sagði að ég væri sannfærður um það. Ég er ekki að tala fyrir hönd einna eða neinna. Þetta er bara mín skoðun, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að þeir séu sammála um að við viljum sjá hér (Gripið fram í.) heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, (Gripið fram í.) fyrir alla landsmenn og að því erum við að vinna. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er erfitt að komast að fyrir hv. þingmanni núna. En þetta er markmiðið. Að þessu erum við að vinna. Ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé nú hættur að tala með þeim hætti sem hann hefur gert fram til þessa. Ég held að hann sé búinn að sjá að sér. Ég rétt leyfi mér að vona það. Ég útiloka þó ekkert í þeim efnum. Hann er að reyna að tala um að við séum svona smátt og smátt í einhverjum samsærishugmyndum að reyna að koma einhverju öðru á heldur en er yfirlýst stefna okkar. Ég get fullyrt það að svo er ekki.