135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég næ þessu ekki alveg með gífuryrðin og breyttar áherslur mínar í þessari umræðu. Ég hef verið, held ég, sæmilega sjálfum mér samkvæmur í þessum efnum og margoft bent á að við búum við heilbrigðiskerfi sem er eins konar kokkteill, sambland af einkarekstri og almannarekinni þjónustu. Þetta finnst hæstv. ráðherra vera mjög undarlegt og lætur í veðri vaka að ég sé að flytja einhver ný tíðindi. Þetta hef ég náttúrlega margoft sagt.

Við erum með stofnanir sem hafa verið reknar eins og opinberar stofnanir hafa verið reknar. Sjálfseignarstofnanir sprottnar upp úr samtökum sjúklinga og verkalýðshreyfingar, Hrafnista, Reykjalundur og annað af því tagi.

En hann talaði jafnframt um hagsmuni. Hverra hagsmunir gætu þetta verið? Ja, það er nú það. Einn af höfuðeigendum Öldungs ehf. lýsti því yfir í viðtali á sínum tíma að hafa mætti geysilegan fjárhagslegan ávinning af öldruðum með því að komast inn í þennan bisness. Þegar Ríkisendurskoðun skoðaði verkefni Öldungs ehf. þá kom á daginn að ástæðan fyrir því að ríkið greiddi meira til þeirrar stofnunar en til sjálfseignarstofnananna eins og Hrafnistu og DAS var sú að eigendurnir þurftu að fá arð. Það er mergurinn málsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill að hagsmunaaðilar á markaði fái reksturinn en almenningur greiði síðan.

Það sem við erum að ræða er hvar þessi landamæri eigi að liggja milli einkarekstrar annars vegar og almannaþjónustunnar hins vegar. Ég er að segja og við höldum því fram og erum ekkert að tala um það sem allsherjarsamsæri, við erum bara að tala um veruleikann eins og hann er að þróast fyrir augunum á okkur, að í hverju frumvarpinu á fætur öðru er verið að færa allar (Forseti hringir.) skilgreiningar í heilbrigðiskerfinu inn í bókhaldsbúning og undirbúa þannig (Forseti hringir.) eða gera auðveldara að markaðsvæða kerfið.