135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þá er það komið. Nú er hv. þm. Ögmundur Jónasson farinn að tala um að þetta sé blandað kerfi einkarekstrar og opinbers rekstrar. Það er gott að það er komið fram. Þá liggur það fyrir.

En hv. þingmaður var á móti því að sjálfseignarstofnunin Grund mundi reka deild á Landakoti. Hann var hreinlega á móti því og fór mikinn hérna, virðulegi forseti, gegn því. Skelfilegt. Skelfileg einkaframkvæmd að Grund skyldi fara í þennan rekstur. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það var utandagskrárumræða um málið. Ég veit þegar ég er skammaður. Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Það var nákvæmlega um það að Grund skyldi fá þetta.

Ef ég hefði hlustað á hv. þm. Ögmund Jónasson hefði þessi deild aldrei verið opnuð núna fyrir 18 einstaklinga. Svo einfalt er það. Menn komast ekkert hjá því. (Gripið fram í.) Ef við förum aðeins yfir þetta, virðulegi forseti, ég er að reyna að skilja samsæriskenningarnar hans Ögmundar, þá gengur það held ég út á það að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sér einhvern sérstakan hag í því að láta einhverja hluti til einhverra einkaaðila sem eiga að græða rosalega mikið. Ég veit ekki af hverju það ætti að vera af hálfu Sjálfstæðisflokksins að gera það. En allt í lagi, út á það gengur samsæriskenningin. Ef einhverjir hafa slíkar hugmyndir þá er besta leiðin til að koma í veg fyrir slíkt að kostnaðargreina og leita útboða vegna þess að þá geta fleiri boðið í og meiri líkur á því að hagstætt tilboð komi í það. En alveg hreint og klárt að kostnaðargreina svo það verði engin slys þegar eitthvað slíkt kemur upp.

Síðan hef ég ekki hugmynd um, virðulegi forseti, af hverju hv. þm. Ögmundur Jónasson er með þessar samsæriskenningar. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það. Ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum frá því ég var fimmtán ára gamall og fullyrði að enginn af þeim sem ég hef kynnst þar hefur áhuga á slíkum hlutum, en kannski er það í einhverjum öðrum stjórnmálaflokkum sem ég þekki minna til.