135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[18:50]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um uppbót á eftirlaun.

Frumvarp þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí á síðasta ári um fyrstu aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja og einnig í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember 2007 um að ríkissjóður mundi tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði, að viðbættri uppbót á eftirlaun, frá 1. júlí 2008.

Frumvarpinu er ætlað að bæta kjör þeirra sem hafa engin eftirlaun úr lífeyrissjóði eða eftirlaun sem ekki ná 25 þús. kr. á mánuði. Almennt mun uppbót sú sem frumvarpið mælir fyrir um koma til viðbótar við þær tekjur sem þessir einstaklingar hafa frá Tryggingastofnun ríkisins, að teknu tilliti til atvinnu- og fjármagnstekna. Þá mun hún hafa sambærileg áhrif á aðrar greiðslur frá ríkinu og lífeyrissjóðsgreiðslur hafa og skattleggjast með sama hætti.

Samkvæmt frumvarpinu mun réttur til uppbótar ná til þeirra sem orðnir eru 67 ára og hafa hafið töku eftirlauna úr lífeyrissjóði sem ekki ná 25 þús. kr. á mánuði, sem og þeirra sem náð hafa sama aldri og ekki eiga réttindi til eftirlauna. Hafi viðkomandi einstaklingur aðrar tekjur, svo sem atvinnutekjur eða fjármagnstekjur, koma þær til lækkunar á uppbótinni enda er henni ætlað að styrkja stöðu þeirra eftirlaunaþega sem hafa litlar sem engar tekjur fyrir utan greiðslur úr almannatryggingum. Bætur almannatryggingakerfisins, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og húsaleigubætur teljast ekki til tekna í þessu sambandi.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda falla um 5.000 einstaklingar undir gildissvið frumvarpsins sé miðað við skattframtöl ársins 2007. Útreikningur uppbótar fer fram hjá skattyfirvöldum við álagningu opinberra gjalda ár hvert og miðast hann við tekjur síðastliðins tekjuárs. Gert er ráð fyrir að uppbót verði greidd með jöfnum mánaðarlegum greiðslum í tólf mánuði, að frádregnum tekjuskatti og útsvari, og er greiðslutímabil frá ágúst og fram í júlí árið eftir. Verði frumvarpið að lögum hefjast greiðslur 1. ágúst næstkomandi. Gert er ráð fyrir að skattstjórar í hverju umdæmi annist framkvæmd þessara laga.

Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna uppbótar á eftirlaun, að teknu tilliti til skatta og áhrifa á almannatryggingar, er um 600 millj. kr. Gera má ráð fyrir að samhliða því sem þeim fækkar sem ekki eiga réttindi í lífeyrissjóðum, eftir því sem fram líða stundir, muni færri þurfa á uppbót á eftirlaun að halda og því má áætla að kostnaður ríkissjóðs af uppbót á eftirlaun muni ekki hækka samfara fjölgun aldraðra á Íslandi.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.