135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[18:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að þótt ekki sé stigið stórt skref er þetta þó fyrsti vísirinn að því að viðurkenna það að þeim sem eiga lítil réttindi í lífeyrissjóði, skuli tryggð þau.

En vandinn í þessari útfærslu er hins vegar sá hversu afskaplega lítið stendur eftir af þeirri greiðslu þegar búið er að setja þetta eftir þessari leið inn í lífeyrissjóðina og viðhalda annars vegar 35% skerðingarreglu á bætur almannatrygginga og hins vegar náttúrlega að skattleggja greiðsluna. Manni hefði nú fundist að annað væri þó alla vega nóg, að þetta væri skattlagt meðan við skattleggjum lífeyrissjóðstekjur eins og við gerum en þessi litla upphæð færi ekki líka á fullu í skerðingarregluna inn í aðrar bætur.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé tilefni til þess, af því að búið er að stíga nokkur skref í lagfæringu á þessu kerfi, og eðlilegt að við setjum þá reglu að þessi einstaka viðbót sem fyrst og fremst er ætluð þeim sem hafa ekkert annað, eru lakast settir í bótakerfinu, að þessi sérstaka greiðsla sem ætlað er að hífa upp lægstu tekjur verði þannig útfærð að hún skerði ekki reglur bóta hjá Tryggingastofnun.