135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[18:56]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil mjög vel að hv. þingmaður vilji gera enn betur en hér er lagt til. En ég held hins vegar að sú aðferð sem hann leggur til sé ekki skynsamleg. Það sem við erum að reyna að gera er að koma öllum inn í það kerfi sem lífeyrisgreiðslurnar eru. Fyrir þá sem ekki fá greiðslur úr lífeyrissjóðunum erum við að líkja eftir lífeyrissjóðakerfinu sem er það grunnkerfi sem við ætlum okkur að byggja á í þessum efnum í framtíðinni.

Þess vegna held ég að sú aðferð sem hann nefnir sé ekki skynsamleg. Við eigum að reyna að láta alla vera í sama kerfinu og láta sömu reglur gilda um alla.

Hv. þingmanni finnst lítið koma út úr þessu þegar það er búið að fara í gegnum kerfið. En samt sem áður er það nú svo að þessi hópur sem minnst hefur, þessi eina aðgerð hækkar tekjur þeirra um rétt tæplega 10%.

Fyrir þá sem eru í sambúð er samsvarandi tala 14%. Ég held því að þetta séu umtalsverðar bætur sem hér er um að ræða og ég held að þetta sé skynsamleg aðferð til að koma öllum inn í lífeyriskerfið sem við ætlum að byggja á til framtíðar.