135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[18:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að þetta sé í samræmi við það kerfi sem menn hafa verið að byggja upp. Menn hafa núna verið að setja reglur um það að atvinnutekjur skerði ekki upp í 100 þús. kr., hvorki hjá öldruðum né öryrkjum. Þar fyrir utan er nú komin sérregla sjálfstæðismanna um að þeir sem eru 70 ára og eldri megi hafa eins miklar tekjur og þeir vilja án þess að það valdi neinni skerðingu. Við erum einnig búin að setja regluna um að séreignarlífeyrissparnaðurinn valdi ekki skerðingu.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst þetta eiginlega stinga alveg í stúf við það sem við höfum verið að gera í löggjöfinni á undanförnum missirum, mánuðum og árum, að skilja þessa einstöku greiðslu þannig eftir að hún skerði á öllum stigum. Af tryggingabótum sé líka greiddur fullur skattur o.s.frv. þegar við horfum til þess hvað við höfum verið að gera.

Hæstv. forseti. Að mínu mati er þessi aðgerð vissulega til bóta það sem hún er en hún er ekki í takt við það sem menn hafa verið að gera á undanförnum árum og mánuðum í því að lagfæra kerfið almennt. Hún fylgir ekki þeirri meginhugsun því þetta er eina greiðslan sem skerðir allt. Það gera ekki tekjurnar. Það gerir ekki séreignarsparnaðurinn. Það gera ekki lengur tekjur maka o.s.frv. Sú túlkun er því ekki rétt, hæstv. ráðherra, að þetta sé í samræmi við það sem menn hafa verið að vinna að á undanförnum árum. Þetta skýtur skökku við miðað við það.